Saga Skjálfanda í 50 ár !

Saga Skjálfanda í 50 ár !


Kiwanisklúbburinn Skjálfandi 50 ára
   Á haustdögum 1973 komu nokkrir menn saman að tilstuðlan Stefáns Benediktssonar Húsavík og Hilmars Daníelssonar frá Kiwanisklúbbnum Hrólfi Dalvík til að kann þann möguleika á að stofna Kiwnaiklúbb á Húsavík.  Eftir kynningu á því hvað Kiwanis er, var ákveðið að reyna þetta og afla fleiri félaga sem gekk nokkuð vel. Þegar búið var að ná til 14 félaga var boðað til fyrsta formlegs undirbúnings fundar að stofnun Kiwanisklúbbs sem haldinn var í Félagsheimili Húsavíkur þann 5. nóv. 1973.  Dagskrá fundarins var eftirfarandi.
1.     Nafn á klúbbinn.
2.     Fundardagar – tími og staður.
3.     Árgjald.
4.     Stjórnarkosning og önnur mál.
 
   Stefán Ben stjórnaði þessum fundi og Þórður Ásgeirsson ritaði fundargerð.  
 
   Margar hugmyndir komu fram um nafn á klúbbinn og voru þær

 ræddar bæði til hægri og vinstri eins og ritari komst að orði í fundargerð, en samþykkt var að taka tillögu Jóns Olgeirssonar og nefna klúbbinn Skjálfanda.  Eftir miklar vangaveltur um dag og fundartíma varð að niðurstöðu að halda fundi á sunnudögum kl. 19:00.  Árgjald var ákveðið Kr. 2.000,-  Í stjórn voru kosnir þeir Stefán Benediktsson forseti, Þórður Ásgeirsson ritari og Þórður Eiríksson meðstjórnandi, til vara Brynjar Halldórsson og Leifur Jósefsson.
 
   Stefnt var að því að félagar yrðu orðnir 20 þann 1. Des., en þann félagafjölda þarf til að klúbbur geti talist Klúbbur í aðlögun og 25 félaga þarf til að fá fullgildingu.
 
   2. des, bættust 6 félagar við hópinn og var þá þeim áfanga náð að klúbburinn teldist Kiwanisklúbbur í aðlögun.
   Á þennan fund mættu félagar úr Kiwaniskl. Hrólfi Dalvík og Herðubreið Mývatnssveit og eru þessir klúbbar Móðurklúbbar Skjálfanda og bera því ábyrgð á klúbbnum fram yfir fullgildingu og leiðbeina um fyrstu skrefin.
   Á þessum fundi var rætt um fjáröflunar leiðir og hugmynd kom fram um að gefa út kápu utan á Símaskrá og var skipuð nefnd til að vinna að verkefninu.
   
   Fyrsti fyrirlesari kom á fund 10. mars 1974, sem var Froseti Rotari klúbbs Húsvíkur Jónas Geir Jónsson og gerði grein fyrir störfum Rotari hreyfingarinar.
 
   Á fundi 24. mars 1974 kom fram að Kiwanisklúbburinn Skjálfandi væri búin að ná öllum þeim markmiðum sem klúbbnum er ætlað til að öðlast fullgidingu. 
24. mars er því stofndagur klúbbsins, á þessum fundi var samþykkt að efna til veglegrar Vígsluhátíðar 15. Júni 1974 þar sem Kiwanisklúbburinn Skjálfandi öðlaðist fullgildingu.  
 
   Á fundi 7. apríl gekk í klúbbinn 25. félaginn sem var Ólafur Guðmundsson og er hann jafnframt höfundur að fána klúbbsin.
 
   Nefnd var skipuð til undirbúnings Vígsluhátiðar, nefndin tók strax til starfa og sendi út þátttökubréf til 20 klúbba og umdæmisstjórnar, ákveðið var að bjóða  formanni Lions- og Rotari klúbbs Húsavíkur auk bæjarstjóra Húsavíkur.  
Nú var komið að þessum stóra degi, Vígsluhátíð Kiwanisklúbbsins Skjálfanda sem forseti setti kl. 19:30. Veislustjóri var Þórður Eiríksson og kynnti hann dagskrá sem var m.a. að gestir voru kynntir auk félaga klúbbsins og þeir skrýddir merki Kiwanis, Umdæmisstjóri Haraldur Gíslason afhenti klúbbnum Stofnskrá til staðfestingar á því að Kiwanisklúbburinn Skjálfandi væri orðinn fullgildur klúbbur, þá var klúbbnum afhentar gjafir sem var m.a. klúbbfáni, ræðupúlt og bjalla, fundarhamar auk fánaborgar.
 
   Af þessu má sjá að klúbburinn fór vel af stað og hafði háleit markmið um að þjóna vel í þessu samfélagi, strax var hafist handa um að huga að fjáröflunum, símaskrár kápan sem áður er um getið gekk ekki þrautalaust en hafðist að lokum. 
 
Í október 1974 tóku félagar virkan þátt í fyrsta K-deginum sem er sameiginlegt verkefni allra klúbba í landinu undir kjörorðinu „Gleymum ekki Geðsjúkum“ og hafa félagar verið virkir í K-lykil sölunni alla tíð síðan.  
 
Ákveðið var að hefja Flugeldasölu um áramótin 1974-75 leitað var eftir því við þá aðila sem seldu flugelda um að gefa sölun eftir til okkar. Gekk það hjá öllum nema Kaupfél. Þing., á þeirri forsendu að þeir þyrftu að vera með lager fyrir bátaflotann. Frá þessum tíma, í 50 ár, hefur flugeldasalan verið okkar aðal fjáröflun.  Í fyrsta skiptið voru pantaðar tæpar 400 pakkningar sem seldust allar.  
 
Í febrúar 1975 var sameiginleg söfnun Kiwanis – Lions og  Rotary- klúbba Húsavíkur auk  SVDK og Húsavíkur-deildar Rauðakrossins fyrir snjóbíl til sjúkraflutninga. Söfnuðust kr. 1.350 þús., andvirði bílsins nam Kr. 2,5 millj. gamlar krónur.  
 
Hugmyndir voru uppi um að fara í sjóferð sumarið 1975 til að afla fjár fyrir klúbbinnn, ekki varð af sjóferð þessari í þetta sinn en var farin síðar.  Páskaeggja sala hófst fyrir paska 1975 og  var fjáröflun í nokkur ár, fyrst var gengið í hús en síðar var fengið húsnæði fyrir söluna.  Jólapappír var seldur í nokkur skipti.  
 
 
 
Í maí 1976 hófst  sameiginleg fjáröflun Kiwanis- og Lions- sem var rækju vinnsla, þ.e. að rækjubátar í eigu Kiw.fél. gáfu afla rækju róðurs en Lions fél., útveguðu aðstöðu í Rækjuvinnslu FH.  Í fyrsta róðri veiddust 6,5 tonn af rækju. Þá mættu félagar klúbbanna ásamt eiginkonum og eldri börnum til að vinna rækjuna. Eftir mælingu var nýtingin 28% og taldist mjög gott og gaf þetta af sér 1,4 millj. Ágóði af þessu var ætlaður í fjármögnun á húsgögnum í setustofu fyrir Dvalarheimili aldraðra á Húsavík. Aftur var farið í róður í nóv. sama ár. Þegar svo aðstaðan í Dvalarheimilinu var tilbúin í febrúar 1981, var  komið að því að afhenda þetta söfnunarfé, sem nam 10,5 millj. króna í lok árs 1980.  
 
   Á fundi 12. des. 1976 mættu 6 gestir frá Kópaskeri á fund hjá okkur til að kynna sér starfsemi Kiwanis þar sem þeir hefðu mikinn áhuga á að stofna klúbb þar, í febrúar 1977 fóru félagar úr Skjálfanda til Kópakers á fund hjá þeim og í fram haldi af því var Kiwanisklúbburinn Faxi stofnaður og Skjálfandi því móðurklúbbur þeirra.
 
   Þá má nefna hinar ýmsu fjáraflanir, m.a. vinnu við hitaveitu lögn, málun togara, laxasala, áramóta brennur í nokkur ár, og málun bílastæða merkinga.  Þá er klúbburinn með í gangi auglýsingaöflun á skilti sem er við innkeyrsluna beggja vegna í bæinn.  
 
   Allar þær fjáraflanir sem Skjálfanda félagar hafa staðið fyrir í þessi 50 ár gera á núvirði  um 173,2 milljónir króna. Þessum fjármunum höfum við deilt út til hinna ýmsu aðila, en þar höfum við fylgt kjörorði Kiwanis hreyfingarinnar  „Gleymum ekki börnum heimsins“.  Okkar aðal styrkþegi í gegnum árin er Björgunarsveitin Garðar,  auk fjölskyldna sem átt hafa í erfiðleikum vegna veikinda og sérstaklega þegar um börn hefur verið að ræða, Velferðarsjóðurinn með matarkörfum fyrir jól, Bocciadeild  Völsungs og íþrótta fólki verið veittur mikill stuðningur m.a. með dómgæslu á Bocciamótum í tæp 40 ár og val á Íþrótta manni Húsavíkur í mörg ár.  Klúbburinn hefur einnig stutt við Heilbrigðisstofnun Norðurlands (Þingeyinga) og Hvamm heimili aldraðra. 
 
   Auk þessa höfum við styrkt hina ýmsu hluti, fjáraflanir félgasamtaka, sameiginleg verkefni klúbba hér á Óðinssvæði, Landssafnanir Kiwnisumdæmisins auk heims og Evrópu verkefna Kiwanis og má þar nefna þau umfangsmestu sem er J-verkefnið sem var liður í að útrýma J-skorti og Eliminate eða Stífkrampa verkefnið, báðir þessir sjúkdómar herja á börn og mæður. Þessi verkefni hafa og eru unnin í samstarfi við UNICEF, og nú síðast Samvinnuverkefni Kiwanis í Evrópu til stuðnings fylgdarlausum börnum á flótta og söfnunar til kaupa á skóm til barna í Ukraínu.
 
   Helstu styrkþegar á þessu 50 ára tímabili í sögu klúbbsins eru þessar helstar.
 
Bjsv. Garðar 65,7 millj., aðrar Björgunarsv. hér í nágrenni 4,8 millj.
Heilbr.stofnun Þing. og Hvammur heimili aldraðra 28,3 millj.
Stuðningur við einstaklinga og fjölskyldur v/veikinda 23,5 millj.
Stuðningur við börn, unglinga og íþróttastarf 19,8 millj.  Velferðarsjóður þingeyinga frá stofnun hans árið 2008  5,5 millj.
Þá má geta þess að á baki þessu liggja mörg þúsund klst. í vinnu framlagi.
 
 
 
   Á 25 ára afmæli klúbbsins heiðraði klúbburinn 4 stofnfélaga klúbbsins með því að veita þeim Hixon orðuna sem er æðsta heiðurmerki sem Kiwanis getur veitt.
 
  Í þessari samantekt minni um upphafs ár Kiwanisklúbbsins Skjálfanda, helstu fjáraflanir og styrktar verkefni, má einnig geta að það hafa skipst á skin og skúrir í starfinu. Félagafjöldi fór mest í 32 félaga og var þá starfið í miklum blóma, en um tíma fórum við niður í 10 félaga og erum nú 13 félagar sem kallar á aukinn liðsauka.
 
   Á þessum erfiða tíma var klúbburinn á hrakhólum með húsnæði og fundar aðstöðu og fannst félögum ekki hægt að una þessu lengur og hófst umræða um að athuga um húsnæðis kaup. Ákveðið var að gera tilboð í gamla Rafveituhús bæjarins. Samningar tókust og fengum við húsið afhent í ársbyrjun 2005. Hófust þá framkvæmdir í húsinu og fundarsalur útbúinn. Við vígslu salarins var honum gefið nafnið Þórðarstofa eftir fyrrum félaga okkar Þórði Ásgeirssyni.  
 
   Ég held ég geti fullyrt að þessi ákvörðun okkar um húsakaupin hafi verið okkar mesta happa skerf, enda hefur starfið sjaldan eða aldrei verið öflugra og fjölbreyttara hjá Skjálfanda félögum.  Þá má geta þess að félögum hefur verið trúað fyrir ýmsum embættum innan Umdæmisstjónar, má þar nefna, Umdæmisstjóra starfsárið 2003 – 2004, 4 sinnum Umdæmisféhirði, 7 Svæðisstjóra Óðinssvæðis auk fulltrúa og formanna  í ýmsum nefndum.
 
   Síðustu ár hafa verið nokkuð hefðbundin í starfsemi klúbbsins, yfir okkur gekk heimsfaraldur sem orsakaði það að við gátum ekki fundað um tíma, en þó héldum við Jólafund á TEAMS ásamat mökum og fengum jóla hlaðborð sent heim frá hótelinu, tókst þetta með afbrigðum vel og lífgaði upp á þennan erfiða tíma, svo var bryddað upp á þeirri nýbreytni fyrir síðustu jól að bjóða upp á Skötu veislu þar sem mættu rúmlega 60 manns, þetta mæltist mjög vel fyrir og ákveðið að halda þessum sið áfram sem fjáröflun fyrir klúbbinn.
 
   Hér hef ég stiklað á stóru í sögu klúbbsins og eflaust gleymt mörgu, en að þessu sögðu má sjá að Kiwanisklúbburinn Skjálfandi er einn af þessum sterku og öflugu hlekkjum í Samfélaginu sem við búum í og getum treyst á og getum ekki verið án.
 
Húsavík 24. mars 2024.
Sigurgeir Aðalgeirsson,


   Björn Viðar forseti að setja fund

 


Afhending styrkja til Björgunarsv. Garðars 5.miljónir og Einstök Börn 500 þúsund

 


Umdæmisstj´óri Njörn Bergmann og félagarnir Brynjar og Bergur Elías og Sigurgeir sem urðu 40 - 60 - og 70 ára á síðasta ári og hlutu
Silfurstjörnu - Gullstjörnu og Rúbínstjörnu að gjöf frá klúbbnum.

 


Starfsaldursviðurkenningar Einar H. Valsson 25 ár Ingvar Sveinbjörnsson 40 ár Björn Viðar og Egill Olgeirsson 40 ár Sigurgeir Aðalgeirsson
50 ár ásamt Umdæmisstjóra sem afhenti   viðurkenningarnar og nældi starfsaldurs merkjum í félagana.

 


Afmælistertan

 


Séð yfir veislu gesti í öðrum salnum.

 


Veislu gestir í fundarsalnum okkar.

 


 Umdæmisstjóri Björn Bergmann ávarpar hátíðarfundinn.

 


Eysteinn Heiðar fulltrúi Björgunarsv. Garðars og þakkar fyrir gjöfina og allt það starfs sem Kiwanisklúbburinn Skjálfandi hefur afrekað á
þessum 50 árum og þann stuðning sem Skjálfandi Félagar hafa sýnt Björgunarsveitinni í gegnum árin.

 


Sveitarstjóri Norðurþings Katrín Sigurjónsdóttir ávarpar hátíðarfundinn og þakkar Skjálfanda félögum fyrir þeirra þrótt mikla starfs í
þágu góðra málefna.