K-dagur

K-dagur

K- Dagurinn

Hugmynd að K-degi kemur fyrst fram í grein í marsblaði Kiwanisfrétta árið 1972 þar sem Eyjólfur Sigurðsson fyrrverandi heimsforseti Kiwanishreyfingarinnar þá forseti Kiwanisklúbbsins Heklu setur fram þá hugmynd, að allir Kiwanisklúbbar á landinu haldi sameiginlegan Kiwanisdag og á þeim degi verði haldnar barnaskemmtanir, skemmtanir fyrir aldraða og að klúbbar afhendi styrktar- og líknargjafir svo nokkuð sé nefnt.
Þessi hugmynd er síðan að þróast næstu mánuðina og kemur síðan fram sem fullmótuð tillaga.  Í framhaldi ákveður Kiwanishreyfingin að halda K-dag 18. október 1974, undir kjörorðunum "Gleymum ekki geðsjúkum". Á þeim degi gengu Kiwanismenn ásamt aðstoðarfólki á fund landsmanna og seldu barmmerki, Kiwanis-lykilinn, til styrktar geðsjúkum. Ágóði af þessum fyrsta K-degi rann til húsnæðis og til tækjakaupa fyrir Bergiðjuna, sem er verndaður vinnustaður við Kleppsspítala. Framhaldið er þekkt, K-dagur er orðin fastur liður í Kiwanisstarfinu þriðja hvert ár og kjörorðið "Gleymum ekki geðsjúkum" þekkja allir landsmenn.  Tilgangur með K-degi er ekki aðeins að safna fé, heldur einnig að vekja þjóðina til umhugsunar um málefni geðsjúkra. Í grein sem Tómas Helgason, geðlæknir, skrifar fyrir K-dag 1983, kemur m.a. fram: "Kiwanisklúbbarnir á Íslandi ætla nú í fjórða sinn að beita sér fyrir landssöfnun til þess að stuðla að endurhæfingu geðsjúkra. Framtak þeirra hefur verið til ómetanlegs gagns.  Annars vegar hefur það fé, sem þeir hafa safnað, komið að beinum notum til starfs- og heimilisendurhæfingar sjúklinganna.  Hins vegar hafa þeir vakið athygli alþjóðar á vanda stærsta öryrkjahópsins, þess hóps sem á erfiðast með að tala fyrir sig sjálfur, vegna veikinda sinna og vegna þeirra fordóma sem gætt hefur í þeirra garð.  Lykillinn sem Kiwanismenn hafa selt í fjáröflunarskyni, hefur verið tákn þess sem þeir vilja leggja af mörkum til að eyða þessum fordómum og til að rjúfa einangrun hinna geðsjúku".

Síðasti K-dagur var 2016 og var Hr. Guðni Th Jóhannesson forseti Íslands verndari söfnunarinnar

¨Gleymum ekki Geðsjúkum ¨
Kveðja frá forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessyni


Öll veikjumst við einhvern tímann á lífsleiðinni. Sjúkdómar geta verið illvígir eða viðráðanlegir. Einatt mætum við velvild og skilningi þegar heilsubrestur verður. Samt er það svo að viðmót verður gjarnan annað þegar geðrænir kvillar eiga í hlut. Enn gætir þess um of að þeir þyki feimnismál, jafnvel dáðleysi.

Um árabil hefur Kiwanishreyfingin vakið athygli á málefnum þeirra sem glíma við geðræna sjúkdóma. Einkunnarorðin „Gleymum ekki geðsjúkum“ eru flestum landsmönnum að góðu kunn. Með sölu á K-lyklinum hefur Kiwanisfélögum tekist að afla fjár til að efla geðvernd, eyða fordómum og leita lækninga.

Í ár vilja Kiwanisfélagar beina kröftum sínum að tveimur málefnum. Annars vegar hyggjast þeir styrkja BUGL, Barna- og unglingageðdeild Landspítala Íslands, enda brýnt að sinna vel þeim börnum og ungmennum sem glíma við geðraskanir. Hins vegar er sjónum beint að nýjum samtökun, PIETA Ísland, sem bjóða úrræði fyrir einstaklinga  í sjálfsvígshugleiðingum og þá sem stunda sjálfsskaða. Gildi forvarna á þessum vettvangi er ómetanlegt. 

Við skulum hjálpa þeim sem þurfa aðstoð í erfiðleikum sínum og veikindum. Ég hvet alla til að taka Kiwanisfólki vel á K-daginn í ár, styðja gott málefni og bæta samfélag okkar.

 

Nýjustu færslur

Blog Message

Kiwanisklúbburinn Skjálfandi 50 ára !

Skjálfandafélagar verða með opið hús í Kiwanishúsinu að Garðarsbraut 27 sunnudaginn 24 mars n.k. Kl.15:00 Þar verður boðið uppá kaffi o..
Blog Message

Kynningarfundur á Höfn 7 mars 2024 !

Kristjón Elvar Elvarsson forseti hjá Ós setti fund og ræddi hvernig Ós kemur að þessum fundi. Fól svo Stefán Brandi fundarstjórn en Guðmun..
Blog Message

Hekla 60 ára

Kiwanisklúbburinn Hekla hefur verið að halda upp á afmæli sitt um þessar mundir. Klúbburinn var stofnaður 14 janúar 1964 og á afmælisdagin..
Blog Message

Kveðja frá heimsforseta !

Kæru félagar í Kiwanisklúbbnum Heklu Mig langar að senda ykkur mínar bestu afmæliskveðjur í tilefni 60 ára afmælis klúbbs ykkar. Þetta er..
Blog Message

60 ára afmælið Kiwanis á Íslandi. 

Það var prúðbúinn hópur frá Kiwanisklúbbnum Heklu og fulltrúum umdæmisstjórnar ásamt mökum sem komu saman á Bessastöðum í gær 14. Ja..
Meira...