Karlaheilsa og krabbamein

Karlaheilsa og krabbamein


Fimmtudaginn 29. mars var frábær fundur á Víkinni á vegum kiwanisklúbbsins Óss um karlaheilsu og krabbamein en fyrirlesari var Guðjón Haraldsson blöðruhálsskurðlæknir. Mættir voru 115 karlmenn á besta aldri frá Hornafirði og bauð kiwanisklúbburinn upp á humarsúpu.
Karlakórinn Jökull tók
tvö lög af sinni alkunnu snilld. Fyrst sungu þeir Kátir sveinar og svo Holdið er veikt eftir stjórnandann Jóhann Morávek. Eftir fyrirlesturinn var spurt um margt sem tengist karlaheilsu.
Íslenskir karlmenn eru hörkutól sem telja ekkert bíta á sér en það reynist ekki alltaf rétt. Karlar þurfa líka að huga að heilsunni. Tilgangurinn með fundinum var að auka vitund karla um þeirra eigin heilsu og var fundurinn haldinn í samstarfi við Krabbameinsfélag Suðausturlands.  Það er alltof algengt að karlar vanræki eigin heilsu og verði því fyrir óþarfa heilsutjóni af þeim sökum. Þegar komið er yfir fertugt aukast líkurnar á því að
heilsunni fari að hraka og um leið að menn fái krabbamein.  Því er mikilvægt að þekkja einkenni sjúkdóma og vera meðvitaður um eigin heilsu. Góð mæting á fundinn staðfestir að mikil þörf er á fræðslu sem þessari. Nánar á www.facebook.com/KiwanisclubOs