Auðkennisverkefni Dyngjukvenna !

Auðkennisverkefni Dyngjukvenna !


Kiwanisklúbburinn Dyngja var tilnefnt af Kiwanisumdæminu Ísland-Færeyjar vegna vel framsettu þjónustu-, styrktar og fjáröflunarverkefni þeirra í þágu Vinasetursins í Hafnarfirði vegna auðkennissamkeppni Kiwanis International 2019-2020. Tveir aðrir klúbbar sendu inn verkefni og eru þeir hvattir til að senda inn í næstu samkeppni Kiwanis International. En breytt snið var á samkeppninni þetta ár og í boði voru tveir flokkar. Í hópi eitt eru allt að 27 félagar eða færri og hópur tvö eru klúbbar með 28. félögum og uppúr. Engin frá okkar umdæmi sendi inn umsókn í flokk tvö. Dyngjurnar eru komnar í topp tíu í flokki eitt sem er frábær árangur. Á þessum þráð má sjá nánari fréttir um samkeppnina 

https://www.kiwanis.org/news/newsitem/news/newsitem/clubs-compete-for-top-prizes-in-2020-signature-project-contest

Kiwanisklúbburinn Dyngja hefur starfað í rúm 6 ár og eru félagar 13. Í upphafi starfsins leitaði klúbburinn að styrktarverkefni sem væri í anda markmiða Kiwanis um að hjálpa börnum í heima og heimsbyggð.

Dyngjufélagar fréttu af starfsemi Vinasetursins, sem þá var að stíga sín fyrstu skref á Ásbrú í
Reykjanesbæ. Ljóst var að þetta verkefni væri í anda Kiwanis að styðja starfsemi sem bætir og auðgar líf og umhverfi barna sem standa höllum fæti í samfélaginu. Erfitt er að fá
stuðningsfjölskyldur og þetta því mikilsverð starfsemi fyrir börn. Við kynntum okkur starfsemina með heimsóknum og viðræðum við forstöðukonu og starfsmenn. Í kjölfarið var tekin endanleg ákvörðun um að þarna væri verðugt verkefni að vinna og auðkennisverkefni klúbbsins varð til.

Þetta verkefni er framtíðarverkefni klúbbsins og er samstarfið í stöðugri þróun.
Vinasetrið er helgarheimili fyrir börn á aldrinum 6-12 ára. Einkunnarorð þess
eru „ Gleði, Traust og Nánd “ og unnið er samkvæmt þeirri hugsjón að hvert barn sé einstakt, eigi skilið það allra besta og farnist vel í framtíðinni. Tilgangur heimilisins kristallast í einkunnarorðum þess: A ð hvert barn hafi möguleika á að upplifa gleði þrátt fyrir aðstæður þess eða erfiðleika, að það geti lært að treysta öðrum og umhverfi sínu og upplifað kærleiksríka nánd.

Ofangreint samrýmist skilgreiningu, kjörorðum og nýsamþykktri stefnumótun heims- og
umdæmisstjórnar og á óumdeilanlega sterkan samhljóm með framtíðarsýn hreyfingarinnar að:
„ Kiwanis verði jákvæður áhrifavaldur á Íslandi og í Færeyjum og í samfélögum um allan
heim … svo að dag einn munu öll börn vakna í samfélagi sem trúir á þau, hlúir að þeim og
veitir þeim nauðsynlegan stuðning til að þroskast, dafna og farnast vel.“

Vinasetrið er er nú staðsett í Kaldárseli í Hafnarfirði og er starfrækt allt árið. Þar dvelja um
hverja helgi 22 börn sem þurfa á stuðningi að halda vegna aðstæðna heima fyrir. Ýmist koma
börnin eina eða tvær helgar í mánuð. Hátt í 100 börn koma þarna til helgardvalar yfir árið eða um 500 börn. Samtals eru þetta því um 1.100 komur á heimilið á ári og um 5.500 frá því að heimilið var stofnað. Vinasetrið er eins og venjulegt heimili og hefur það tekist vel. Börnunum bjóðast auknir möguleikar til frístunda, upplifana og aðbúnaðar. Aðstaða öll hentar vel til leikja, nærveru og hvíldar. Einnig að njóta útiveru og hinnar fjölbreyttu og fallegu náttúru þar sem heimilið er staðsett. 

Dvöl í Vinasetrinu, þar sem lögð er áhersla á jákvætt og ljúft viðmót, ný viðfangsefni og félagsheild, gerir hvern og einn einstakling hæfari félagslega og tilfinningalega. Einnig næst að rjúfa þá félagslegu einangrun sem mörg þessara barna búa við. Á heimilinu vinnur fólk með faglega menntun og reynslu. Starfsfólkið er umönnunaraðili barnsins á meðan á dvöl þess stendur. Fylgst er náið með líðan barnsins til skemmri og lengri tíma og unnið að þeim markmiðum sem sett hafa verið. Teymisvinna er milli fagaðila frá félagsþjónustunni, skóla, starfsfólks heimilisins og foreldra/forráðamanna. Vinasetrið er með rekstrarleyfi frá Barnaverndarstofu og starfsleyfi frá heilbrigðiseftirlitinu. Sjá nánar vinasetrid.is og facebook.com/vinasetrid.

Árlega hefur Dyngja styrkt Vinasetrið með um 500 þúsund krónum. Þeim fjármunum hefur
klúbburinn safnað með því að halda tvö bingókvöld á hverju starfsári frá árinu 2013. Félagar
hafa safnað veglegum vinningum hjá fyrirtækjum sem hafa verið mjög jákvæð gagnvart
verkefninu. Einnig hafa mörg þeirra gefið Vinasetrinu auka gjafabréf. Klúbbfélagar hafa ekki
látið þar við sitja því auk styrksins hafa þeir fært heimilinu t.d. húsbúnað, leikföng, heimilisvöru og fatnað. Vinasetrið hefur verið heimsótt árlega og starfsmenn þess komið á fundi og bingókvöldin.
 
Klúbburinn hefur verið valinn fyrirmyndarklúbbur umdæmisins Ísland-Færeyjar síðastliðin fimm ár. Auðkennisverkefni klúbbsins Vinasetrið var valið athyglisverðasta styrktarverkefni umdæmisins á síðasta starfsári. Það fyllti okkur miklu stolti og gleði að fá slíka viðurkenningu og einnig var þetta góð kynning á Vinasetrinu og starfsemi þess. Klúbburinn hefur kynnt verkefnið fyrir öðrum klúbbum, fyrirtækjum og félagasamtökum. Sum hver hafa í kjölfarið styrkt heimilið, m.a. valdi Styrktarsjóður Umdæmisins Ísland-Færeyjar að styrkja Vinasetrið á síðastliðnu ári.

Á bingókvöldunum og við önnur tækifæri hafa félagar sagt frá verkefninu og lagt áherslu á að
verkefnið væri samfélagslegt verkefni okkar sem Kiwanisfélaga. Um leið kynnum við Kiwanis, áherslur þess, markmið og starfsemi. Einnig höfum við skrifað í hverfisblöð um það sem við, Kiwanisfélagar, erum að gera. Þannig komum við á framfæri hinu góða starfi Kiwanis í þágu barna, hugsjónum þess og framtíðarsýn fyrir hönd allra barna heims.