Starf Kiwanisklúbbsins Jörfa starfsárið 2018-19.

Starf Kiwanisklúbbsins Jörfa starfsárið 2018-19.


Almennt starf í Jörfa var um flest með hefðbundnum hætti það sem af er þessu starfsári.  Þó var brugðið út af venju um sumt.  Undanfarin ár höfðum við haldið okkar almennu fundi í húsakynnum Umdæmisins við Bíldshöfða.  Fannst eðlilegt að reyna að skjóta stoðum undir þessi nýju húsakynni.  Reyndar óaði mörgum félagsmönnum við aðstöðunni frá upphafi og þó að margt hafi færst til betri vegar innanhúss þá var ekki hægt að segja það sama um aðkomuna og umgengni í húsinu.  Endaði með því að að samþykkt var að yfirgefa Bíldshöfðann og varð úr að fundir voru haldnir á Grand Hótel.  Ekki er víst að framhald verði á vistinni þar.  Vandinn við að vera á slíkum stöðum er geymsla á fundargögnum milli funda.
Almennt starf innan

 klúbbsins var með hefðbundnum hætti lengst af vetrar.  Tveir fundir í mánuði að jafnaði og fengnir fyrirlesarar á a.m.k. annan þeirra til að fræða okkur um ýmis málefni.  Fjáraflanir voru hefðbundnar,  sala á sviðum, blómum og jólasælgæti.  Þátttaka félaganna var að jafnaði góð enda gjarnan líf og fjör við undirbúninginn, ekki síst þegar sviðin eru sviðin, söguð og pökkuð.  Styrktarverkefni voru einnig flest hefðbundin og beindust að börnum eins stefna Kiwanis er. þrjú SOS börn, ungir tónlistarnemar  í Suzuki skólanum, fátækar fjölskyldur í Árbæjar- og Grafarholtssókn fengu matarkörfur fyrir jólin og Kvennaathvarfið fékk styrk til að bæta aðstöðu barna sem dveljast þar með mæðrum sínum oft langtímum saman.
Félagar í Jörfa hafa flestir verið lengi saman og það skapar samheldni í hópnum. Það má t.d. nefna að af 30 félögum hafa 19 verið það lengur en 15 ár.  Það gefur til kynna að þeim leiðist ekki samveran enda “gaman saman” þekktur frasi í klúbbnum.  
Í þeim anda var stjórnarskiptafundurinn í vor haldinn á Park Inn hótelinu í Berlín 27.apríl í vor í 4 daga ferð þangað. 34 félagar og makar áttu þar frábæra samveru í besta veðri vorsins.  Áhugaverðar skoðunarferðir voru farnar ásamt rölti í smærri hópum um miðborg Berlínar og lífsins notið eins og hverjum og einum hentaði.  Þar er margt að skoða enda enn  mikil uppbygging í gangi eftir sameininguna og er eftirtektarvert hve fjölbreyttri byggingarlist er gert hátt undir höfði.  
Bernharð Jóhannsson fráfarandi forseti átti hugmyndina að ferðinni og sá um alla framkvæmd af skörungsskap.
Á fundinum var ákveðið að stjórn klúbbsins héldist óbreytt næsta ár eftir umræður síðustu ára að þar sem félagavelta í klúbbnum væri mjög lítil þá væri óþarfa fyrirhöfn að skipta um stjórn árlega.  Hve framvinndan verður í þeim efnum er óráðið.  Þó Jörfa haldist nokkuð vel á félögum þá hefur reynst  snúið að afla nýrra og yngri félaga en vonandi tekst hreyfingunni að snúa við þróun undanfarinna ára varðandi nýliðun.  Því eins og einkunnarorð núverandi forseta, Guðmundar Helga “Lífið er ekkert án vináttu”  eitthvað sem hefur einkennt starfið.   

Með Kiwaniskveðju
Haraldur Finnsson kjörforseti.