Evrópuþing í Reykjavík

Evrópuþing í Reykjavík


Óskar Guðjónsson sjöundi Íslendingurinn í starfi forseta Kiwanis í Evrópu • Íslenska K-dags verkefnið í 15. sinn
Kiwanishreyfingin hefur starfað á Íslandi í rúm 55 ár og 24.-26. maí verður Evrópuþing í Reykjavík, en þar er ráðgert að afhenda afrakstur af sölu K-lykilsins til styrktar geðsjúkum fyrr í sama mánuði.
Kiwanishreyfingin hefur starfað á Íslandi í rúm 55 ár og 24.-26. maí verður Evrópuþing í Reykjavík, en þar er ráðgert að afhenda afrakstur af sölu K-lykilsins til styrktar geðsjúkum fyrr í sama mánuði.
Óskar Guðjónsson tók við sem forseti Kiwanis í Evrópu í október sl. eftir að hafa verið kjörinn í embættið á Evrópuþinginu á Ítalíu í vor sem 

leið. Hann var kosinn varaforseti á þinginu í Austurríki 2016 og kjörforseti 2017. „Íslendingar hafa alla tíð verið mjög öflugir í Kiwanishreyfingunni í Evrópu,“ segir Óskar, sem er sjöundi Íslendingurinn til að gegna forsetaembættinu.
Um 600.000 eru í Kiwanisfjölskyldunni á heimsvísu. Mest hafa verið um 1.350 manns í hreyfingunni á Íslandi en félagsmenn eru nú rúmlega 800. „Á heimsvísu erum við samt fjölmennust miðað við höfðatöluna frægu,“ segir forsetinn, en hreyfingin var stofnuð í Bandaríkjunum 1915 og var lengi vel einungis þar og í Kanada.


Þjónusta börn heimsins
Kiwanis er alþjóðleg þjónustuhreyfing með það helst að markmiði að þjónusta börn heimsins undir kjörorðinu Serving the Children of the World. Óskar segir að samvinnuverkefni með Unicef um baráttu gegn stífkrampa hafi lokið fyrir tveimur árum en samt sé enn unnið að því. „Íslenska K-dags verkefnið okkar verður í 15. sinn í maí, en þriðja hvert ár söfnum við framlögum til styrktar geðsjúkum.“ Hann bætir við að ráðgert sé að afhenda afrakstur af sölunni á Evrópuþinginu síðar í sama mánuði. 


Óskar byrjaði í Kiwanis fyrir um 30 árum, þegar hann varð félagi í klúbbnum Brú á Keflavíkurflugvelli 1989. Það var sameiginlegur klúbbur íslenskra starfsmanna á vellinum, bandarískra hermanna og annarra útlendinga sem störfuðu þar í alþjóðasamstarfinu. Þegar starfsemi Bandaríkjanna á vellinum var hætt missti Óskar starfið, fékk vinnu í Reykjavík og gekk í Kiwanisklúbbinn Eldey í Kópavogi, þar sem hann býr. Hann var umdæmisstjóri umdæmisins Ísland-Færeyjar 2009 til 2011. „Sá sem átti að taka við af mér forfallaðist á síðustu stundu þannig að ég hélt áfram annað ár og varð þar með sá fyrsti til þess að vera umdæmisstjóri í tvö ár.“

Árið 2012 var Óskar kjörinn í heimsstjórn Kiwanis, en þar hafði Eyjólfur Sigurðsson áður setið og var m.a. heimsforseti. Eftir þrjú ár í stjórninni ákvað Óskar að snúa sér að Evrópuhreyfingunni og fékk þar góða kosningu í forsetaembættið. Von er á um 200 erlendum fulltrúum auk um 100 íslenskra á Evrópuþingið í vor. „Gunnsteinn Björnsson frá Sauðárkróki verður í framboði í heimsstjórnina og við gerum okkur góðar vonir enda þingið haldið á heimavelli,“ segir Óskar.

Óskar Evrópuforseti og Konný eiginkona hanns.

Forystumenn Bernhard Jóhannesson, fráfarandi forseti Kiwanisklúbbsins Jörfa í Reykjavík, Guðmundur H. Guðjónsson, núverandi forseti, og Óskar Guðjónsson, forseti Kiwanis í Evrópu.