Sólborgarfréttir í nóvember !

Sólborgarfréttir í nóvember !


Kiwanisklúbburinn Sólborg hélt almennan fund 26. nóvember 2018. Fundurinn var skemmtilegur og fróðlegur og mættu margir góðir gestir. 
Óskar Guðjónsson evrópuforseti heiðraði okkur með nærveru sinni og sagði okkur frá leið hans innan Kiwanis, væntanlegu evrópuþingi og frá Happy Child verkefninu. Jafnframt færði hann klúbbfélögum fána og barmmerki að gjöf.
Stundum þarf ekki að leita langt yfir skammt til að finna fyrirlesara. Í klúbbum getur verið fólk sem hefur aðra sýn og aðra lífsreynslu en aðrir. Því leituðum við til Ingu S. Guðbjartsdóttur hjúkrunarfræðings og Sólborgarfélaga. Hún fjallaði um sálræna skyndihjálp fyrir fullorðna, sem verður fyrir yfirþyrmandi og erfiðri lífsreynslu, sem getur

valdið áfalli þar sem engin fyrri bjargráð duga, eru týnd. Fróðlegt erindi um hvað hægt er að gera þegar fólk verður fyrir áfalli.
Þá kom í heimsókn til okkar hönnuður sem sýndi okkur leðurvörur sem hún hannar. Hún hefur mikinn áhuga á að ganga í klúbbinn og ætlar að mæta á næsta viðburð klúbbsins til að kynnast okkur betur. Að loknum fundi gátu félagar og gestir skoðað fallegar töskur og sumar keyptu.
Þá mættu fjórir félagar úr öðrum klúbbum og almennir gestir voru 10 sem eru konur sem voru reiðubúnar til að kynna sér starfið, með það í huga að ganga í klúbbinn. Sólborgarkonur voru 16 þannig þetta var óvenju fjölmennur fundur og gaman að fá svo marga gesti og ekki spurning að það gefur góða innspýtingu. 
Gaman að segja frá því að með ötulli vinnu klúbbfélaga seldust allir jólapokar með Góu sælgæti á aðeins 12 dögum, en þetta er aðalfjáröflun Sólborgar. Margar hendur vinna létt verk.
Næst á dagskrá klúbbsins er jólarölt sem verður 13. desember og ætla félagar að hittast við Hallgrímskirkju kl.18 og rölta um miðbæinn, enda síðan á veitingastað og borða saman. Alltaf gaman í kiwanis.