Kiwanisklúbburinn Herðubreið selur konudagsblóm

Kiwanisklúbburinn Herðubreið selur konudagsblóm


Á hverju ári selur Kiwanisklúbburinn Herðubreið 
konudagsblóm til fjáröflunar fyrir styrktarsjóð sinn. Þetta er einn af mikilvægu þáttunum í starfsemi klúbbsins og einn af þeim sem gerir klúbbfélögunum unnt að styrkja góð málefni í samfélaginu.
     Á seinni árum eru við svo heppnir að eiga að indælt fólk sem stjórnar verslun Samkaupa í Reykjahlíð sem núna heitir Kjörbúðin. Við fáum aðstöðu þar til að selja konudagsblómin sem auðveldar okkur mjög framkvæmd hennar. Ýmislegt gerist nú sniðugt og ánægjulegt í blómasölunni. Um daginn kom t.d. hópur af erlendum ferðamönnum í búðina þegar við vorum að selja blómin. Einn úr hópnum staðnæmdist hjá 

sölumanninum og spurði hvort þetta væri Kiwanis og hvort við værum með Kiwanisklúbba á Íslandi. Honum var tjáð að margir klúbbar væru í Umdæminu Ísland/Færeyjar sem honum þótti merkilegt og sagðist endilega vilja kaupa blómvönd handa konunni sinni því hann væri Kiwanismaður frá Bandaríkjunum.
Blómin seldust upp og því allir ánægðir, konurnar með blómin sín, klúbbfélagar með aura í styrktarsjóð og svo seinna þeir sem fá að njóta þeirra. 

Á myndinni er Finnur Baldursson forseti Herðubreiðar á milli hjónanna frá Bandaríkjunum sem keyptu blómin.