Andrés Hjaltason minning

Andrés Hjaltason minning


Það er með sorg og söknuði sem ég minnist vinar míns Andrésar K. Hjaltasonar. Samstarf  okkar hófst innan Kiwanishreyfingarinnar á sumarhátíð að Álfaskeiði þar sem hann bað mig að koma með sér í svæðisstjórn þar sem hann var að taka við sem svæðistjóri í Ægissvæði og síðan þróaðist samstarfið. Síðar er hann var að undirbúa starf sitt sem umdæmisstjóri Kiwanisumdæmisins Ísland-Færeyjar bað hann mig að vera umdæmisritari í stórn sinni en svo varð ekki þar sem ég varð síðan beðinn að verða kjörumdæmisstjóri með Andrési og þar hófst tímabil náins samstarfs og mikillar vináttu. Í starfi sínu innan Kiwanis nýttist vel reynsla hans úr daglegu starfi sem stjórnandi og að hafa við hlið sér sína góðu konu, Jóhönnu, sem hann kallaði ritar sinn innan Kiwanis sem studdi hann með ráð og dáð. 
Andrés hafði lag á að fá menn til liðs við sig og til að ná samfellu í starfið og unnum við Andrés stefnumótun til lengri tíma með Guðmundi Baldurssyni þá sem fráfarandi umdæmisstjóra. Sem síðan þróaðist það áfram með Matthíasi Péturssyn og  Óskari Guðjónssyni. Við kölluðum okkur skuggaráðuneytið sem hittist árlega með mökum okkar í mat til skiptist hjá hverjum. Þannig varð til vinátta sem náði einnig til maka. 
Andrés var kallaður til fleiri verka innan Kiwanis.  Hann var í framboði til Evrópuforseta og munaði litlu að hann næði kjöri. Hann stýrði 

fræðslumálum hreyfingarinnar um árabil og nú síðustu ár var hann forseti Tryggingasjóðs Kiwanis. Alla sína tíð innan Kiwanis var hann einn af máttarstólpum sín klúbbs, Keilis í Reykjanesbæ og ekki síður Kiwanishreyfingarinnar. 
Við hjónin minnumst fjölda samverustunda, eins og ferðar til Pólands 2007 vegna Evrópuþings þar sem hans góðu foreldrar, Erla María og Hjalti voru með í för og ferðar sama árs til San Antonio í Texas á heimsþing Kiwanis og svo 2008 til Orlando í Florida á heimsþing Kiwanis og í framhaldi dvöldum við í sumarhúsum og áttum við ásamt fjölskyldum þar góðan tíma og fórum saman m. a. í Disney world. Þar nutu börnin sín og ekki síður börnin í okkkur fullorðnu. Telma dóttir okkar minnis með hlýhug góðra samskipta þar.
Með Andrési er genginn einn af öflugustu félögum Kiwanishreyfingarinnar á Íslandi og er hans sárt saknað og er hugur okkar hjá fjölskyldu Andrésar. 
Harmur og söknuður er sárastur hjá Jóhönnu hans góðu konu, börnum, tengdabörnum, barnabörum  og foreldrum og vottum við þeim okkar dýpstur samúð um leið og við þökkum vináttuna, hafðu þökk fyrir allt og allt. Blessuð sé minning Andrésar K. Hjaltasonar.

Gylfi og Nína