Fréttatilkynning frá Kiwanisumdæminu Ísland-Færeyjar !

Fréttatilkynning frá Kiwanisumdæminu Ísland-Færeyjar !


Sumarið er komið!

Í meira en 10 ár hefur afhending Kiwanishjálma í grunnskólum landsins í samvinnu Eimskipa og Kiwanis verið merki um að sumarið sé í nánd. Í gær voru fyrstu hjálmarnir þetta árið afhentir 1. bekkingum  í Hörðu-vallaskóla í Kópavogi. Það voru einstaklega þakklátir 99 krakkar sem eftirvæntingarfull og glöð fengu glænýja reiðhjólahjálma í sumargjöf úr höndum félaga í Kiwanisklúbbnum Eldey í Kópavogi.

 

Meðal viðstaddra voru fulltrúar Eimskipa og bæjarstjóri Kópavogs Ármann Kr. Ólafsson ásamt formanni bæjarráðs, Theodóru S. Þorsteinsdóttur. Öll hvöttu

þau börnin til að vera ætíð með hjálm, hvort sem þau væru að hjóla eða við leik á hjólabrettum, því slysin gera aldrei boð á undan sér. 

 

Frá því að Hjálmaverkefni Kiwanis var gert að landsverkefni árið 2004 hefur Eimskipafélag Íslands verið helsti styrktaraðili þess og á fyrirtækið miklar þakkir skildar fyrir ómetanlegan stuðning við Kiwanishreyfinguna og æsku landsins og í ár bætast um 5000 hjálmar við þá tölu. Á landsvísu hafa frá upphafi verkefnisins verið afhentir um 58.000 hjálmar. Í Kópavogi hafa verið afhentir um 6.000 hjálmar, sem segir okkur að um 20% Kópavogsbúa hafa fengið og borið Kiwanishjálma. Í ár verða afhentir um 546 hjálmar í níu grunnskólum bæjarins.

 

Kjörorð Kiwanis er þjónusta í þágu barna og í anda þess markmiðs tryggir afhending reiðhjólahjálma í öllum grunnskólum landsins að yngstu börnin að leik og í umferðinni eru öruggari en ella.

 

 

 

Kópavogi 12 apríl 2016