Frá Kiwanisklúbbnum Ölver

Frá Kiwanisklúbbnum Ölver


Kiwanisklúbburinn Ölver hélt sinn fyrsta fund eftir sumarfrí á miðvikudaginn 2.september síðastliðinn. Kiwanismenn eru bjartsýnir á komandi haust og vetur og munu halda áfram frá þar sem frá var horfið. 

Næst á dagskrá eru stjórnarskipti sem verða haldin laugardaginn 19.september.

Ölversmenn buðu upp á súpu á Hafnardögum sem haldnir voru  í byrjun júni, margir voru með jibbíkóla með sér til

að drekka en aftur á móti fengu allir sem vildu súpu og  voru yfir 650 skammtar af humarsúpu afgreiddir sem runnu ljúflega ofan í gesti og gangandi.

Aðra helgi í júlí héldu Ölversmenn sína árlegu fjölskylduútilegu og var farið að þessu sinni að Hraunborgum í Grímsnesi. Um 80 manns mættu og nutu félagsskapar Kiwanismanna og hvers annars. Að venju var boðið upp á kjötsúpu á föstudagskvöldinu og á laugardagskvöldinu var boðið uppá grillað læri, svínakjöt og meðlæti með því. Veðurguðirnir léku við hvern sinn fingur og forsetinn hann Gísli Eiríksson lék við öll börnin, börnum og foreldrum þeirra til mikilar gleði.

Þegar liðið var á ágústmánuð komu nokkrir vaskir Ölversfélagar saman og hreinsuðu gróður og annað drasl sem safnast hafði við Kiwanishúsið að Óseyrarbraut og eiga þeir hrós skilið fyrir það verk.

Nú er næsta starfsár að byrja og verður þetta spennandi og skemmtilegur vetur sem er fram undan. Hvetjum við allar afturgöngur (gamlir Ölversfélagar) um að endurnýja kynni sín við klúbbinn. 

Allir þeir sem hafa áhuga á Kiwanisstarfinu geta sett sig í samband við undirritaðan og/eða Gísla Eiríksson fyrir frekari upplýsingar. Fundir eru að jafnaði tveir í mánuði, fyrsta og þriðja hvern miðvikudag þar sem létt og gott andrúmsloft ríkir. Einnig heldur Kiwanisklúbburinn Ölver nokkrar skemmtanir yfir starfsárið og fer ágóðinn af þeim í starfið hjá klúbbnum.

Vonandi sjáumst við sem flestir á komandi starfsári.  

Fyrir hönd Kiwanisklúbbsins Ölvers,

Gústaf Ingvi Tryggvason,

formaður blaða- og ljósmyndanefndar.