Umfangsmikið söfnunarátak Kiwanisklúbbsins Drangey !

Umfangsmikið söfnunarátak Kiwanisklúbbsins Drangey !


Umfangsmikið söfnunarátak Kiwanisklúbbsins Drangey fyrir nýjum speglunartækjum á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki er nú lokið. Tækin komu til landsins í lok janúarmánaðar og til stendur að afhenda þau með viðhöfn í fjáröflunar- og fræðsluskemmtun í tilefni af Mottumars í Miðgarði kl. 16. Að sögn Ólafs Jónssonar hjá Kiwanisklúbbnum er um er að ræða alhliða speglunartæki, bæði fyrir maga og ristil, og verða þau ein fullkomnustu tækin sinnar tegundar á landinu.

 

 

„Við ætluðum að afhenda þau síðla í janúar en þá hafði Heilbrigðisstofnunin ákveðið að kaupa nýtt sótthreinsi- og þvottatæki fyrir þessar græjur, sem koma ekki fyrr en 20. febrúar. Þá var ákveðið afhenda þau formlega á Mottumarsdeginum 7. mars,“ segir Ólafur Jónsson í samtali við Feyki. „Þá verða tækin afhent og samningur undirritaður við HSN sem kveður m.a. á um að tækin séu afhent með þeim skilmálum að ekki sé heimilt að flytja þau burt af svæðinu.“

Dagskrá Mottumarsskemmtunarinnar í Miðgarði verður í senn skemmtileg og fróðleg en allir sem að henni koma munu gefa vinnu sína. Fram koma Karlakórinn Heimir, Álftagerðisbræður, Rökkurkórinn og Kvennakórinn Sóldís og Friðbjörn Sigurðsson krabbameinslæknir flytur fræðsluerindi  og svarar fyrirspurnum. Veitingar verða í boði nokkurra kvenfélaga í Skagafirði og kynnir verður Gunnar Rögnvaldsson á Löngumýri.

„Þarna munum við líka kynna fimm ára verkefnið okkar, speglunarátakið sem við upphaflega fórum af stað með, þar sem öllum 55 ára á árinu verður boðin frí ristilspeglun. Við hyggjumst skrifa undir samstarfssamning við HSN til fimm ára vegna þessa.“

„Við erum afar hreyknir og stoltir af þessu litla samfélagi okkar. Söfnunin gekk mun hraðar og betur en við þorðum að vona þegar við fórum af stað með hana. Þarna komu fjölmargir aðilar að og við fengum allsstaðar hreint frábærar viðtökur. Ekki má gleyma rausnarlegu framlagi Rótarý-manna, félaga í Oddfellow, ásamt fjölda annarra sem lögðu málstaðnum lið,“ segir Ólafur að endingu.

 

Verkefninu lauk hinsvegar með glæsilegri fjáröflunarsamkomu í menningarhúsinu Miðgarði sl. laugardag. Fjöldi manns var þar saman komið til að hlýða á fræðsluerindi og söngatriði en þar afhentu jafnframt Kiwanismenn einn fullkomnasta speglunarbúnað landsins til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Sauðárkróki, sem keyptur var fyrir afrakstur umfangsmikillar söfnunar. 

Þar var jafnframt skrifað undir samning um búnaðinn og fimm ára verkefni um skimun fyrir ristilkrabba. FeykirTv var á staðnum og ræddi m.a. við Ólaf Jónsson svæðisstjóra hjá Kiwanis um söfnunina og fangaði stemninguna á filmu – sjón er sögu ríkari.

 

Myndband má nálgast HÉR

 

www.feykir.is  greindi frá