Fjáröflunarsamkoma hjá Drangey í tilefni Mottu-Mars

Fjáröflunarsamkoma hjá Drangey í tilefni Mottu-Mars


Kiwanisklúbburinn Drangey og Krabbameinsfélag Skagafjarðar standa fyrir fjáröflunarsamkomu í menningarhúsinu Miðgarði næstkomandi laugardag og hefst hún kl. 16:00. Á dagskrá eru fræðsluerindi og söngatriði. Þá munu félagar úr Kiwanisklúbbnum afhenda Jón Helga Björnssyni, forstjóra HSN, einn fullkomnasta speglunarbúnað landsins og skrifað verður undir samning um búnaðinn og fimm ára verkefni um skimun fyrir ristilkrabba.

Gunnar Sigurðsson, forseti Kiwanisklúbbsins Drangeyjar setur samkomuna en kynnir verður Gunnar Rögnvaldsson á Löngumýri. Söngatriði flytja Kvennakórinn Sóldísir, undir stjórn Sólveigar Sigríðar Einarsdóttur, Helga Rós Indriðadóttir sópran, Rökkurkórinn undir stjórn Thomasar R. Higgerson, Skagfirski Kammerkórinn undir stjórn Helgu Rósar og Karlakórinn Heimir undir stjórn Thomasar. Vegna óviðráðalegra orsaka geta Álftagerðisbræður ekki verið með að þessu sinni.

Fræðsluerindi flytja Friðbjörn Sigursson krabbameinslæknir, Inga Margrét Skúladóttir hjúkrunarfræðingur. Þá munu Ólafur Jónsson og Ásgeir Böðvarsson meltingarsérfræðingur kynna samstarfsverkefni HSN Sauðárkróki og Kiwanisklúbbsins Drangeyjar um skimun fyrir ristilkrabba sem mun ná yfir næstu 5 ár, að minnsta kosti.

Aðgangseyrir er 2000 krónur og þess er sérstaklega getið að posi verði á staðnum. „Það ber að þakka öllum þeim er lögðu þessari Mottumarshátíði lið á einn eða anna hátt. Það er sómi að búa í samfélagi sem þessu sem hefur þennan mátt til að gera þá hluti er hér hafa verið gerðir,“ sagði Ólafur Jónsson, félagi í Kiwanisklúbbnum Drangey í samtali við Feyki í vikunni.

 

www.feykir.is  greindi frá