NEYÐARKALL, NEYÐARKALL ! Benedikt Kristjánsson skrifar.

NEYÐARKALL, NEYÐARKALL ! Benedikt Kristjánsson skrifar.


Kiwanis skipið er að sökkva. Það hefur verið viðverandi leki á skipinu í mörg ár. Margt hefur verið reynt og ýmsar aðferðir hafa verið prófaðar í gegnum árin. Ekkert kemur að gagni og það hækkar stanslaust sjór í skipinu. Kallarnir okkar sem standa vaktina og hlýða sínum yfirmönnum ausa og ausa og föturnar stækka jafnt og þétt. Nú er svo komið að þeir eru að gefast upp, þrátt fyrir hetjulega baráttu þeirra og þá reynir hver að bjarga sér sem best hann getur og stekkur frá borði án alls björgunarbúnaðar, er þetta það sem við Kiwanisfélagar viljum?

Hver er stefna Kiwanishreyfingarnar Ísland – Færeyjar ef hún er til? 

  1. 1.    Er stefnan kannski að senda fulltrúa út í hinn stóra heim til að læra að fjölga félögum? , nei það hefur sýnt sig að svo er ekki og lekinn á skipinu er viðvarandi.
  2. 2.    Er stefna hreyfingarinnar að velja hóp manna til að kenna okkur sveitamönnunum að fjölga í klúbbunum okkar? , nei það virkar ekki og ekki hefur lekinn minnkað við það.
  3. 3.    Er það stefna hreyfingarinnar að halda fjölgunarráðstefnur? , nei það virkar ekki og enn hækkar sjór í skipinu okkar.
  4. 4.    Er það stefna kiwanishreyfingarinnar að áhöfnin stökkvi frá hinu sökkvandi skipi? , nei það er ekki í boði, hvað gerum við þá? 

  Okkur skal takast að stöðva lekann og stýra skipinu um öldur hafsins um ókomna tíð. Ég vil taka það fram að þetta er sú mynd sem að ég Kiwanismaðurinn Benedikt Kristjánsson sé ef ég horfi í baksýnisspegilinn síðustu 10 árin. Ég ber mikla virðingu fyrir öllu því góða fólki sem hefur reynt ýmsar leiðir til að snúa þessari þróun við en því miður hefur okkur ekki tekist það sem stefnt skal að.
  Hvað skal þá gera?
  Við skulum horfa til framtíðar og ekki vera að velta okkur fyrir því af hverju okkur fækkar og fækkar. Í hvers kyns naflaskoðun þurfum við að fara í? Sú skoðun fer ekki fram með sendinefnd í útlandinu hinu stóra en sú skoðun fer fram hjá okkur sjálfum í okkar eigin heimaklúbbum. Nú um þessar mundir eru tvö ár síðan að ég tók þá ákvörðun að gerast forseti Skjálfanda. Ég tók líka þá ákvörðun að ef ég fengi stuðning til að gegna starfi forseta myndi ég nýta mér breytt lagaumhverfi hreyfingarinnar og sitja í tvö ár með minni stjórn og mínum nefndum. Ég var settur í embætti af Ólafi Jónssyni svæðisstjóra ásamt forsetum Herðubreiðar og Öskju í október síðastliðinn. Strax á þessum fundi lýsti ég því yfir að ég ætlaði ekki að fara troðnar slóðir og hef af því sem af er starfsárs staðið við það.

  Eins og áður hefur komið fram fer ég ekki eftir troðnum slóðum en að sjálfsögðu eru fastir liðir í okkar dagskrá sem ekkert þarf að breyta og allir eru ánægðir með. Á fyrsta almenna fundi í október lagði ég fram mína fyrstu fundarskrá og hváðu þá margir. Ég var búinn að fella út nefndir, sameina nefndir og setja á laggirnar nýjar nefndir. „Er kallinn orðinn vitlaus“ sögðu menn þá. Önnur nýja nefnin heitir fjölgunar- eða framtíðarnefnd eins og ég vil að hún verði kölluð.
  Okkur Skjálfandafélögum hefur fækkar, við höfum misst unga og efnilega menn sem ég hafði með einum eða öðrum hætti áhrif á að gengju við liðs við okkur. Mér lék forvitni á að vita hvað varð til þess að þessir ungu menn hættu eftir eitt til tvö ár í hreyfingunni. Hvað er það sem við erum ekki að gera rétt? Ég fór og hitti þessa fyrrum félaga okkar og lagði fyrir þá alla sömu fjórar spurningarnar sem eru: 

  1. 1.    Voru upplýsingar ekki nægilega góðar um kostnað og fleira að ykkar mati?
    Svar: Almennt allir ánægðir með upplýsingarnar en kostnaður meiri en þeir gerðu ráð fyrir.
  2. 2.    Var óskað eftir meira vinnufrumlagi en talað var um?
    Svar: Allir voru sammála um það að þeim fannst verkefnin frekar mörg og gerðu sér ekki fulla grein fyrir vinnunni sem var þar á bakvið
    ps. Skjálfandi er að ég held ekki með meira á sinni könnu af verkefnum en almennt aðrir Kiwanisklúbbar.
  3. 3.    Voru fundirnir langir og ekki nógu skemmtilegir?
    Svar: Þeim fannst fundirnir ekkert of langir en of formfastir.
  4. 4.    Hvað fannst ykkur um tímann sem þarf til að sinna vel Kiwanisstarfinu?
    Svar: Mun meiri tími en þeir reiknuðu með.

  Með þessar upplýsingar í handraðanum ásamt mörgu fleiru sem ég hafði gefið mér góðan tíma til að hugsa um skipaði ég framtíðarnefndina. Sú nefnd hefur það eina hlutverk að skoða innri mál Skjálfanda og koma með tillögur til úrbóta. Í byrjun desember héldum við félagsmálafund um málefni Skjálfanda og var það eina málið á dagskrá fundarins í umsjá framtíðarnefndar. Fundurinn var gríðarlega góður og bind ég miklar vonir við það starf sem kom úr nefndum frá þeim fundi á starfsemi Skjálfanda og hugmynd verður lögð fram og ætlum við okkur að vinna áfram eftir þeim hugmyndum í stjórn Skjálfanda. Í stuttu og samanteknu máli má segja að niðurstaða nefndarinnar sé að gera fundina einfaldari og vinnuna skemmtilegri á viðburðum Skjálfanda. Enn fremur fjallaði nefndin líka um svokallaða fjölgun og við höfum ákveðið að taka upp nýtt nafn og kalla hana að viðhalda klúbbnum sem að okkar mati kemur til með að felast í samtakamætti klúbbfélaga. Einn fyrir alla og allir fyrir einn.

  Framtíðarnefndin mun sjá um Kiwanisfundinn um miðjan mars næstkomandi. Þá verður í fyrsta skipti keyrt eftir nýju leiðinni og geri ég mér miklar væntingar til þessa fundar.

  Ég sem forseti Skjálfanda fer ekki á límingunum yfir því hvort okkur takist að fjölga um einn, tvo eða engan á þessu starfsári en ég ætla að leyfa mér að vona það að þegar reglubundnum fundum lýkur í vor geti ég ásamt minni stjórn horft tilbaka og sagt, þetta gátum við, við erum búnir að færa Skjálfanda fram um 100 ár. Í  haust þegar starfið hefst þá höfum við þessar nýju leiðir sem vonandi reynast okkur vel til framtíðar, til eflingar á Kiwanisklúbbnum Skjálfanda og einnig Kiwanisumdæmið Ísland-Færeyjar.

 

Kiwanis kveðja góð
Benedikt Kristjánsson
Forseti Skjálfanda.