Kiwanishjálmarnir, Haraldur Finnsson skrifar.

Kiwanishjálmarnir, Haraldur Finnsson skrifar.


Undanfarið hefur nokkur fjölmiðlaumræða snúist um að Eimskip vilji gefa grunnskólabörnum í 1. bekk reiðhjólahjálma en fái ekki að afhenda þá í skólum borgarinnar. Í þeirri umræðu hefur ýmislegt verið missagt og og rangfært og full ástæða til að leiðrétta það. Staðreyndin er að það er Kiwanishreyfingin hefur átti allt frumkvæði að verkefninu og sér um samskiptin við börnin. Eimskip hefur aftur á móti verið mikilvægur styrktaraðili. Sögu verkefnisins má rekja aftur til 1990 þegar hugmyndin kviknaði hjá öflugum Kiwanisfélögum á Norðurlandi sem hrintu hugmyndinni í framkvæmd vorið 1991 með tilstyrk Sjóvár, Mjólkursamlagsins og fleiri góðra fyrirtækja ásamt því að leggja til fé úr styrktarsjóði klúbbsins. Allir 1. bekkingar grunnskóla á Akureyri fengu reiðhjólahjálma til eignar. Verkefnið mæltist afar vel fyrir og hugmyndin var tekin upp af fleiri klúbbum á Norðurlandi og einnig sunnan heiða. 2003-4 gekkst Sigurgeir Aðalgeirsson þáverandi umdæmisstjóri frá Húsavík fyrir því að gera þetta að landsverkefni Kiwanis 

og leitaði eftir styrktaraðilum því ljóst var að verkefnið er umfangsmeira en svo að Kiwanishreyfingin réði við að fjármagna það ein. Niðurstaðan varð að Eimskip gerðust allsherjarstyrktaraðili við verkefnið og hefur verið það síðan og reynst ómetanlegur bakhjarl og með því sýnt mikla samfélagslega ábyrgð. Verkefnið hefur verið kynnt á Evrópu- og heimsþingum Kiwanis og vakið mikla athygli. Hefur Eimskipum verið veitt sérstök viðurkenning sem fyrirmyndar styrktaraðili. Eimskip hafa séð um hönnun og framleiðslu á hjálmunum og flutt þá til landsins. Sem framleiðanda er þeim skylt að setja nafn sitt á þá. Afhending til skólabarnanna hefur svo alfarið verið í höndum Kiwanisfélaga. Við það tækifæri hafa þeir gjarnan frætt börnin um öryggishlutverk hjálmanna og fengið skólahjúkrunarfræðinga, lögreglu og fleiri til aðstoðar við það verkefni. Samvinna við skólana er mikilvæg til að fá upplýsingar um fjölda nemenda og nafnalista svo tryggt sé að enginn verði útundan og í skólunum hefur ríkt mikill vilji til að greiða götu okkar sem best og stuðningur við verkefnið. Eitt árið var gerð tilraun með að fá foreldra til að velja sér hjálm á netinu, en það gaf ekki góða raun. Þetta er 12. árið sem 1. bekkingum landsins er afhentur hjálmur. Lauslega áætlað þá eru þetta nær 50 000 hjálmar sem afhentar hafa verið á landsvísu og örugglega yfir 50 000 að meðtöldum hjálmunum sem einstakir klúbbar afhentu áður. Margar sögur hafa borist okkur Kiwanismönnum til eyrna um óhöpp sem hefðu getað leitt til alvarlegra slysa ef hjálmanna okkar hefði ekki notið við. Þá eru ótalin áhrifin sem hjálmanotkun barnanna hefur haft á hjálmanotkun foreldranna og gert notkun hjálma svo almenna sem raun ber vitni. Markmið hjálmaverkefnis Kiwanis hefur frá upphafi verið að stuðla að öryggi barna í umferðinni og koma í veg fyrir alvarleg slys og óhöpp við hjólreiðar sem er afar vinæl frístundaiðkun auk þess að vera góð samgönguleið.
Hjálmarnir nýtast einnig vel við notkun hjólabretta og hjólaskauta. Verkefnið er meginstoð Kiwanis á Íslandi í uppfylla einkunnarorð Kiwanis: Hjálpum börnum heimsins.

Höfundur: Haraldur Finnsson f.v fomaður Hjálmanefndar Kiwanis.

www.fotspor.is greindi frá.