Níunda hver mínúta

Níunda hver mínúta


ÁSTBJÖRN EGILSSON SKRIFAR:
Fátt er fallegra og gleðilegra en fæðing barns. Hafi allt gengið að óskum í fæðingunni tekur við tími mikillar eftirvæntingar hjá foreldrum. Þeir hlakka til að fylgjast með nýjasta fjölskyldumeðlimnum taka þau stórkostlegu þroskaskref sem framundan eru og umvefja hann ást og umhyggju.??Foreldrar sem búa á þeim svæðum í heiminum þar sem enn fyrirfinnst stífkrampi geta hins vegar ekki leyft sér að gleðjast með þessum hætti. Ekki strax. Við tekur óttafullur tími. Skyldi barnið hafa smitast? Ef barnið hefur smitast af stífkrampa í fæðingunni er fátt hægt að gera til að bjarga því. Þau vita það.?
Stífkrampi er skæður sjúkdómur með öra og afar kvalafulla framrás. Hann smitast úr umhverfinu í opin sár og er algengasta smitleiðin í naflasár hvítvoðunga. Sjúkdómurinn var afar aðgangsharður á Íslandi á árum áður. Sem dæmi létust 60-80% nýfæddra barna í Vestmannaeyjum um miðja nítjándu öld og í Grímsey létust fimm börn úr stífkrampa árið 1904, en á þeim tíma bjuggu rétt rúmlega 80 manns í eyjunni.??Í dag er stífkrampi hins vegar óþekktur hérlendis, þökk sé bættum lífsgæðum og bólusetningum. Bólusetning er eina leiðin til að koma alfarið í veg fyrir sjúkdóminn en byrjað var að bólusetja gegn honum hérlendis árið 1952.??Þrátt fyrir að hægt sé að koma í veg fyrir sjúkdóminn með bólusetningu deyja árlega 60.000 ungbörn og mæður úr stífkrampa. Það er á níu mínútna fresti! Meirihluti þeirra býr á svæðum þar sem konur eru fátækar og hafa takmarkaðan aðgang að heilsugæslu og upplýsingum um öruggar fæðingar.??Kiwanis og UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, eiga að baki afar árangursríkt samstarf í baráttunni fyrir bættum lífsgæðum barna á heimsvísu. Áður hafa samtökin verið í samstarfi í baráttunni gegn joðskorti hjá börnum og skilaði það gríðarlegum árangri. Nú hafa samtökin tekið höndum saman á ný til að útrýma stífkrampa. Við vitum að það er hægt. Á síðustu 20 árum hefur dánartíðni nýbura vegna stífkrampa lækkað um heil 90%.??Við hjá Kiwanis biðlum til almennings að aðstoða okkur í þessari baráttu. Með því að senda sms-ið STOPP í númerið 1900 er hægt að styrkja baráttu okkar um 630 krónur – eða sem nemur níu bólusetningum. Ekkert barn á að þurfa að deyja af orsökum sem jafnauðvelt er að koma í veg fyrir og stífkrampa.