Frá hjálmanefnd.

Frá hjálmanefnd.


Nú fer að líða að árlegum vorverkum Kiwanismanna, að afhenda öllum börnum í 1.bekk grunnskóla á Ísland reiðhjólahjálm.  Þetta er einstaklega þakklátt verk og er eitt af frábærum verkefnum sem Kiwanishreyfingin hefur haft forgöngu um.  Hugmyndin fæddist fyrir norðan, hjá Kaldbak á Akureyri og var fyrstu árin eingöngu á ábyrgð einstakra klúbba, með fyrirtæki í  héraði sem styrktaraðila. Landsverkefni varð það svo 2004 með Eimskip sem styrktaraðila og þannig hefur það verið síðan.
Nú eins og s.l. vor er stefnan að hjálmarnir verði tilbúnir til afhendingar um miðjan apríl þannig að afhending til barnanna geti hafist strax að loknu páskaleyfi. Þar sem engir Kiwanisklúbbar eru nálægir þá verða hjálmarnir sendir beint í skólana.  Það á við um Snæfellsnesið, Dali og suðurfirði Vestfjarða, uppsveitirnar á Suðurlandi og svæðið frá Þjórsá að Skeiðará og mið-Austurland. Þar sem klúbbar sjá um afhendinguna utan Reykjavíkur eru hjálmarnir  sendir beint  til klúbbanna.  Í Reykjavík eru aðstæður með öðrum hætti þar sem skólayfirvöld þar vilja ekki að Kiwanismenn afhendi hjálmana í skólunum og alls ekki á skólatíma.  Þar verða klúbbarnir að komast að samkomulagi við hvern skóla fyrir sig um hvar, hvenær og hvernig afhendingin fari fram.  Síðan verða þeir að komast að samkomulagi við Eimskip um afhendingu og flutning.  Þetta er töluvert flóknara og aukin fyrirhöfn en Kiwanismenn eru vanari  að leysa vandamálin fremur en búa þau til þannig að við treystum þeim fullkomlega að leysa þetta.    Það er  mjög miður ef einstrengingslegt regluverk spillir fyrir því  góða samstarfi sem við áttum við skólastjórnendur og skólahjúkrunarfræðinga í Reykjavík um fræðslu til barnanna varðandi öryggismál og hjálmanotkun.
 Aðalatriðið er þó að hjálmarnir komist örugglega á höfuð allra 1.bekkinga. Þar má enginn verða útundan.

Haraldur Finnsson formaður hjálmanefndar

Aðrir í hjálmanefndinni eru:
P.Ragna Pétursdóttir Sólborgu
Ólafur Jónsson Drangey
Jónas Hreinsson Eldfelli
Sverrir Benónýsson Höfða