Pistill frá Umdæmisstjóra.

Pistill frá Umdæmisstjóra.


Smá fréttir af starfi umdæmisstjóra fram á daginn í dag.
Í janúar var haldinn umdæmisstjórnarfundur þar sem umdæmisstjóri helgaði sér þann sið sem mörg svæði eru farin að gera, að láta ekki lesa upp skýrslur heldur voru þær sendar til fundarmanna fyrir fundinn í tölvupósti. Með þessu vannst meiri tími í umræður um skýrslur og starf hreyfingarinnar.
Á fundinum skipaði umdæmisstjórn vinnuhópa sem hver um sig fékk sitt verkefni til að ræða og skilar svo skýrlsu fyrir næsta umdæmisstjórnarfund. Ætlunin er að vera svo með umræðuhópa um niðurstöður hópanna á þinginu í haust. Þau málefni sem þessir hópar fengu eru þessi:
Umdæmisþing og skipulag þeirra, hvenig er hægt að gera þing áhugaverðari og árangursríkari fyrir hreyfinguna.
Útgáfumál, Kiwanisfréttir, rafrænar eða ekki, heimasíðu útlit og innihald.
Fjölgun, hvað hefur áunnist og hvað ekki hvað má betur fara. Kynningar og markaðsmál.
Umdæmisstjórnarfundir,fyrir hverja og kostnað og að lokum Fræðslumál.
Þeir aðilar sem skipaðir voru til þess að leiða þessa hópa hafa kallað á þá sem tilnefndir voru sem og fleiri til starfans.
Er það von mín og trú að með þessari vinnu munum við leggja línurnar og færa hreyfinguna betur inn í nútímann.
Í febrúar var Evrópustjórnarfundur, þangað fór undirrituð sem og Óskar Guðjónsson sem fulltrúi í heimsstjórn, en hann tók reyndar við sem ráðgjafi umdæmisins í forföllum Colin Reichle sem varð frá að hverfa vegna veikinda. Á þessum fundi sögðu umdæmisstjórnar Evrópu frá sínum umdæmum, farið yfir drög að nýjum umdæmislögum sem nú þarf að þýða á okkar tungu. Farið yfir stöðuna á Stífkrampaverkefninu, komið inn á félagafjölda í Evrópu. Umræður voru um að ef félagar sem eru þrítugir og eða yngri gæti fengið styrk til ferðar á Evrópuþing, eða sem nemur 500evrum til hvers umdæmis.
Lögð var fram samanburðarskýrsla evrópsku umdæmanna, þar sem tekið var saman, félagafjöldi, fjölgun/fækkun síðustu 5 ár, fjöldi klúbba, meðal fjöldi í klúbb,  skipting kynja, meðalaldur, mæting félaga/klúbba til þings og hvenig félagar/klúbbar eru á netinu heimasíða/facebook. Ég hef hug á að gera samskonar könnun fyrir klúbbana í umdæminu okkar.
Nú fagnar hreyfingin hér á landi,  hálfrar aldar afmæli sem hófst þann 14.janúar er Kiwanisklúbburinn Hekla fagnaði 50 ára afmæli sínu. Nú er að koma að því að klúbbarnir í landinu fagni þessu og hefst það með flottri sýningu á göngum Kringlunnar dagana 20. til 22. mars næstkomandi.
Hvet ég klúbbana til að mæta, kynna starfsemi sína sem og hreyfingarinnar, þarna gefst okkur kostur á að vera sýnileg en það er nú einmitt eitt af því sem svo oft hefur verið talið skorta á í okkar starfi. Þarna verður hleypt af stokkunum samtarfsverkefni okkar og UNICEF sem við köllum STOP1900 sem allir ættu að vera klárir með núna.
Ég hlakka til að vera með ykkur þessa daga.Munum að Kiwanis er vinátta - Kiwanis er kraftur. Í Kringlunni getum við sameinað þetta - vináttu og kraft.

Ég hef ákveðið að vera með viðveru á skrifstofu umdæmisins að Bíldshöfða 12 alla þriðjudaga milli kl.16:30-18.00 nota tímann til vinnu sem snýr að starfinu eins geta félagar komið í létt spjall, skoðað salinn og mun alltaf vera kaffi á könnunni. Einnig er hægt að hafa samband símleiðis fyrir þá sem ekki eiga heimangengt, en síminn á skrifstofunni er 588-3636 í annan tíma þá er það bara minn sími eða tölvupóstur.

Dröfn Sveinsdóttir
umdæmisstjóri 2013-2014