Fréttir frá Sólborgu

Fréttir frá Sólborgu


Starf Kiwanisklúbbsins Sólborgar þetta starfsárið hófst með inntöku nýs félaga á stjórnarskiptunum.  Þá gekk Sonja Freydís Ágústsdóttir í okkar raðir.  Við bjóðum hana hjartanlega velkomna og hún er frábær viðbót við góðan klúbb.  Þegar þetta er ritað hafa verið haldnir tveir stjórnarfundir og tveir klúbbfundir, annars vegar félagsmálafundur og hitt almennur fundur þar sem Rósa Guðbjartsdóttir var fyrirlesari og kynnti matreiðslubók sem hún er að gefa út ásamt því að selja eldri bækur sínar.

Kiwanisklúbburinn Sólborg byrjaði starfsárið á að gefa þrjú útvarpstæki til Landsspítala – Háskólasjúkrahúss heila-, tauga- og bæklunarskurðlækningadeild B-6 en beiðni barst frá deildinni.  Bjöllur við rúm sjúklinga innihalda útvörp en þau hafa verið biluð lengi og stendur ekki til að gera við þau, því endurnýja þarf allan búnaðinn i einu. Nú er svo komið að sjúklingar sem vilja horfa á sjónvarpstæki, staðsett á stofum, þurfa að koma með heyrnartæki með sér, en það geta ekki allir.  Aðstæður sjúklinga eru misjafnar, sumir eiga aðstandendur sem komast ekki til þeirra vegna búsetu út á landi, sumir eiga fáa að og aðrir eru einstæðingar. Þá er tími á sjúkrahúsi oft lengi að líða. Oft hafa þessir sjúklingar saknað þess að hafa ekki útvarpstæki til að hlusta á, til að stytta sér stundirnar og leiða hugann frá vanlíðan.  Það var okkur því sönn ánægja að geta orðið þarna að liði.

Við horfum bjartsýnar til vetrarins og erum strax farnar að huga að jólum.  Framundan er vinnufundur þar sem gengið verður frá nammikössum sem við munum síðan selja og mun ágóðinn renna í styrktarsjóðinn okkar.  Þann 3 desember er okkar árlega jólabingó sem haldið er í Flensborgarskólanum og vonumst við til að sjá sem flesta þar.

Með góðri kiwaniskveðju,
Emelía Dóra Guðbjartsdóttir
Blaðafulltrúi Sólborgar