Arnór fékk Lundann

Arnór fékk Lundann


Samhliða Lundakvöldi Kiwanisklúbbsins Keilis  var ákveðið að árlega yrði veittur gripur til einstaklings sem að mati nefndar hefur látið gott af sér leiða og/eða unnið óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins, bæjarbúa og/eða bæjarfélagsins Reykjanesbæjar.

Verðlaunagripurinn er uppstoppaður Lundi á steini ásamt verðlaunaplötu og skjali. Nefndinni  bárust  fjölmargar tillögur um einstaklinga sem allir voru vel að því að komnir að  fá þessi verðlaun í ár.
Lundann 2013 sem afhentur var í tólfta sinn hlaut  Arnór B. Vilbergsson organisti og kórstjóri við Keflavíkurkirkju.  Arnór hefur verið driffjöðrin í mjög öflugu kóra-og tónlistarstarfi að undanförnu.  Má þar m.a. nefna U2 messu og Jesus Christ Superstar þar sem kór kirkjunnar réðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Þá gaf kórinn út hljómdisk sem tekinn var upp í Stapa.
Söngskemmtunin  Með blik í auga hefur verið haldin  samhliða Ljósanótt undanfarin þrjú ár  og fengið góðar viðtökur. Arnór hefur verið einn aðal forsprakkinn fyrir þá skemmtun, útsett öll lög og stjórnað hljómsveit.


Myndatexti:
Jón Ragnar Reynisson forseti Keilis afhendir Arnóri Lundann