Kiwanismenn gefa reiðhjólahjálma í grunnskólana

Kiwanismenn gefa reiðhjólahjálma í grunnskólana


Þessa dagana eru félagar í Kiwanisklúbbnum Þyrli á Akranesi að afhenda reiðhjólahjálma í 1. bekki grunnskólanna á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit. Sveit Kiwanismanna var mætt í Grundaskóla á Akranesi í bítið í gær, þriðjudagsmorgun, til að afhenda hjálmana. Alls eru það 101 fyrstu bekkingur sem fá hjálmana á Akranesi og átta í Hvalfjarðarsveit.
Áður en hjálmarnir voru afhentir börnunum ræddi Sigurður Þór Elísson verkefnisstjóri umferðarfræðslu í Grundaskóla við börnin um notkun hjálma í umferðinni, á reiðhjólinu, á hlaupahjólinu og hjólaskautunum, og um réttar stillingar á hjálminum. Og það voru ekki aðeins hjálmarnir sem börnin fengu frá kiwanisklúbbnum Þyrli, heldur fylgdi í pakkanum bolti, endurskinsmerki og buff til að nota undir hjálminum þegar svalt er í veðri. Að sjálfsögðu fengu stelpurnar bleika hjálma og strákarnir bláa, en reyndar var eitthvað um það að stelpurnar vildu bláa hjálma. Einn strákurinn spurði um hvort ekki væri hægt að fá gráan hjálm, en börnin þurftu margs að spyrja og ræða.
Ingimar Hólm Ellertsson hafði orð fyrir þeim Þyrilsmönnum við afhendinguna. Brýndi hann fyrir börnunum að nota hjálmana og gat þess í leiðinni að þetta væri í 21. vorið sem kiwanishreyfingin á Íslandi afhenti hjálma í forskóladeildir um mest allt land.