Þórarinn Ingi fékk lundann frá Keili

Þórarinn Ingi fékk lundann frá Keili


Samhliða Lundakvöldi Kiwanisklúbbsins Keilis  var ákveðið að árlega yrði veittur gripur til einstaklings sem að mati nefndar hefur látið gott af sér leiða og/eða unnið óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins, bæjarbúa og/eða bæjarfélagsins Reykjanesbæjar.
Verðlaunagripurinn er uppstoppaður Lundi á steini ásamt verðlaunaplötu og skjali. Nefndinni  bárust  fjölmargar tillögur um einstaklinga sem allir voru vel að því að komnir að  fá þessi verðlaun í ár. Nefndin er  sammála að Lundann 2012 hljóti Þórarinn Ingi Ingason flugstjóri hjá Landhelgisgæslunni. Þórarinn er fæddur 1971 og uppalinn í Innri- Njarðvík. Eftir grunnskólanám fór hann til sjós sem hann stundaði til 28 ára aldurs. Frá sjónum lá leiðin um loftin blá en hann hóf flugnám og útskrifaðist sem flugmaður árið 2002. Þórarinn hóf störf hjá Gæslunni sem flugmaður árið 2004. Eitt af fjölmörgum verkefnum þyrluflugmanna hjá Gæslunni er  leit að fólki og sjúkraflug, en Þórarinn hefur það sem af er ári farið í 30 sjúkraflug. Fyrir stuttu stjórnaði Þórarinn björgunarflugi á Jökulsá á Lóni er þyrlan bjargaði átta hestamönnum sem voru hætt komnir á skeri í ánni. Því miður lést einn mannanna. Að sögn Þórarins var veður ákaflega slæmt, vindur yfir 25 metrar og búið var að gera nokkrar tilraunir að ná til mannanna án árangurs, en það tókst í þriðju tilraun. Hann segir að þessi björgun hafi verið með þeirri erfiðustu sem hann hefur lent í og tók mjög á áhöfnina.
Saga Lundans Lundinn var fyrst afhentur árið 2002 og þá hlutu hann þeir Vilhjálmur Þorleifsson og Óskar Ívarsson starfsmenn áhaldahúss Reykjanesbæjar sem höfðu unnið í áratugi við að fegra bæinn. Árið 2003 hlaut Lundann Ólafur Oddur Jónsson heitinn, sóknarprestur í Keflavíkursókn sem í mörg ár hélt  uppi umræðum og fræðslu gegn sjálfsvígum. Tómas Knútsson hlaut Lundann árið 2004, en Tómas setti á fót Bláa herinn sem hefur unnið ötullega við að hreinsa strandlengjuna og þá hefur hann stjórnað Sportköfunarskóla Íslands. Steinþór Jónsson hótelstjóri á Hótel Keflavík og bæjarfulltrúi hlaut Lundann  fyrir árið 2005. Steinþór hefur látið margt gott af sér leiða og unnið óeigingjarnt starf fyrir bæjarfélagið. Steinþór var upphafsmaður að lýsingu Bergsins og síðan hátíðinni Ljósanótt sem fylgdi í kjölfarið. Nefndin var sammála um að Lundann 2006  skyldi hljóta Sigfús B. Ingvason prestur í Keflavík. Nefndin var  sammála um að Lundann 2007 skyldi hljóta Erlingur Jónsson. Erlingur hefur látið til sín taka á árinu í forvarnarstarfi í Reykjanesbæ og hefur ritað ófáar greinar um skaðsemi eiturlyfja. Nefndin var  sammála að Lundann  árið 2008  skyldi  hljóta, Ragnheiður Sif Gunnarsdóttir forstöðumaður í Björginni – Geðræktarmiðstöð Suðurnesja. Nefndin var sammála að Lundann árið 2009 skyldi hljóta Karen J. Sturlaugsson aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Nefndin var sammála að Lundann 2010 skyldu hljóta Halldór Halldórsson og Haraldur Haraldsson úr rústabjörgunarsveit Landsbjargar og félagar í Björgunarsveit Suðurnesja. Nefndin var sammála að Lundann 2011 hljóti Hjálmar Árnason  framkvæmdastjóri Keilis. Keilir miðstöð vísinda,fræða og atvinnulífs er eitt af óskabörnum Suðurnesjamanna sem varð til við brotthvarf varnarliðsins árið 2006.
 
Víkurfréttir greindu frá.