Aftur boðað til aukafundur í Evrópustjórn

Aftur boðað til aukafundur í Evrópustjórn


Að beiðni umdæmisstjóranna níu hefur verið boðað til aukafundar í Evrópustjórn og verður fundurinn haldinn í Belgíu föstudaginn 24. ágúst. Fundurinn er haldinn til að ganga frá samkomulagi við Kiwanis  International um greiðslur til Evrópu á næsta starfsári og skiptingu þeirra, en hingað til hafa þessar greiðslur runnið beint í rekstur Evrópustjórnar.
Samkomulag er um að KI greiði KIEF 180 þúsund evrur (28 milljónir króna) til reksturs á næsta ári en auk þess innheimtir KIEF um 210 þúsund evrur í félagsgjöld frá klúbbunum í Evrópu. Allir núverandi umdæmisstjórar  vilja hafa áhrif  á í hvað þessum peningum er eytt, en ekki láta fjögurra manna framkvæmdaráð taka allar ákvarðanir og kynna síðan ákvarðanir sínar á fundum Evrópustjórnar.
Í Evrópustjórn sitja níu umdæmisstjórar með atkvæðisrétt og fjórir aðrir með atkvæðisrétt sem eru  núverandi, fráfarandi og verðandi tveir Evrópuforsetar og þeir skipa síðan framkvæmdaráð. Það er því ljóst  að ef umdæmisstjórarnir standa saman þá geta þeir lagt línuna en ekki  látið matreiða  ofan í sig. Á fundi sem átta umdæmisstjórar héldu í New Orleans í tengslum við heimsþingið var ákveðið að leggja til við framkvæmdaráð að samþykkja fyrirliggjandi drög að samkomulagi við KI.  Þá var einnig samþykkt að leggja til breytingu á fjárhagsáætlun (budget) Evrópustjórnar fyrir starfsárið 2012-2013. Breytingarnar eru eftirfarandi:
    •    Greiðslan frá KI skiptist þannig að umdæmin fá 70% og Evrópustjórn 30%
    •    Verkefni sem snúa að fræðslu og fjölgunarmálum færast yfir til umdæmanna
    •    Hætt verður við árlega  fundi með formönnum fræðslunefnda
    •    Fundum framkvæmdaráðs verði fækkað

Það var ósk okkar að þessar tillögur yrðu samþykktar á fundi framkvæmdaráðs sem verður haldinn 18. ágúst í Amsterdam. Því var hafnað á þeim forsendum að erfitt væri að breyta fjárhagsáætlun næsta árs. Þeim var þá bent á  að innan fjárhagsáætlunar þessa árs er ekki gert ráð fyrir þessum fundi framkvæmdaráðs í Amsterdam og var óskað eftir því að hann yrði afboðaður til að spara pening. Jafnframt óskuðu allir umdæmisstjórarnir eftir að boðað yrði til aukafundar í Evrópustjórn (Samkvæmt lögum þarf sex atkvæði til að geta óskað eftir að boðað verði til aukafundar) og nú hefur verið ákveðið að hann verði haldinn föstudaginn 24. ágúst í bænum Leuven rétt fyrir utan Brussel. Er þessi tími ákveðinn vegna þess að verðandi Evrópuforseti er með fund á þessum stað á laugardeginum fyrir sína stjórn og nefndarformenn.

Það er hálf skrýtið að það þurfi að halda tvo aukafundi í Evrópustjórn með ærnum tilkostnaði  til að ná fram tillögum og breytingum sem níu af þrettán stjórnarmönnum vilja gera. Það má því segja að allt þetta starfsár hafi verið undirliggjandi barátta á milli framkvæmdaráðs og umdæmisstjóranna níu á að gera breytingar sem fyrst og fremst draga úr kostnaði og sérstaklega óhóflegri framúrkeyrslu síðustu 2-3 ára í Evrópu.

 



Ragnar Örn Pétursson