Heimsþing 2012

Heimsþing 2012


Heimsþing Kiwnaishreyfingarinnar var haldið í New Orleans 28.júní -1.júlí.  Á vegum umdæmisins sátu umdæmisstjórarnir þingið ásamt mökum, en við Konný vorum þarna á eigin vegum, m.a. vegna móttöku viðurkenninga  og staðfestingar á kjöri í heimsstjórn og fyrstu kynningar og þjálfunar nýrra heimsstjórnarmanna.
Eftir Evrópuþing beið törn við lokaundirbúning Isgolfs Eldeyjar, en vestur um haf var haldið 22.júní. Löngu var ákveðið að mæta nokkrum dögum fyrir þing og nota tækifærið til að skoða borgina. Það var ótrúlegt að sjá uppbygginguna sem átt hefur sér stað í kjölfar þess að fellibylurinn Katarína reið yfir borgina í lok ágúst 2005. Meir en 80% af borginni fóru undir vatn, sum staðar allt að 5 metrum.
Menjar Katarínu sjást enda víða, en kraftaverki næst er hvernig tekist hefur að snúa hlutunum við. Borgin er þekkt fyrir sína fjölbreytilegu menningarstrauma, sem gera hana evrópskari en nokkra aðra borg í Bandaríkjunum. Meðan á þingi stóð var hitinn 35-40 stig og mikill raki. Þakkaði maður þá fyrir loftkælda ráðstefnuhöll, sem vel rúmaði þá rúmlega 4þúsund félaga sem skráðir voru.

Þingdagskrá var einnig mjög fjölskrúðug. Fræðsla um allt er viðkemur Kiwanis og oft kannski 4-5 mismunandi vinnustofur sem þig langaði til að sækja. Allur tími er nýttur og ýmsir hádegisverðafundir í boði og sóttum við t.d. “Eliminate” og “Leadership Lunchon”,móttökur fyrir Zellerhafa, fyrir   fyrirmyndarfélaga, opið hús fyrir Eliminate verkefnið og móttöku í tilefni 25 ára afmælis kvenna í Kiwanis. Umdæmin eru mörg með kvöldhitting og umdæmisstjóraárgangar hittast iðulega á heimsþingum. Sátum við öll slíka kvöldverði og einnig sameiginlegan kvöldverð Evrópu- og Asíufélaga.  Aukinheldur var okkur Hjördísi boðið til sérstaks hátíðarkvöldverðar fyrir fyrirmyndarumdæmi 2010-11 og veittar sérstakar viðurkenningar.

Mikið lagt uppúr félagslegu hliðinni á heimsþingum, að fólk hittist, rabbi, kynnist, skiptist á skoðunum og fræðist um Kiwanisstarf í mismunandi löndum, umdæmum, klúbbum.  Að sjálfsögðu skipa þingstörfin stærsta sessinn á heimsþingum með lagabreytingum og leiðtogakosningu. Þau fara fram í þrennu lagi.  Þingsetning-Þingstörf-Þinglok, sitt hvern daginn, 3-4 tíma í einu. Fyrir þessu þingi lágu einar 17 lagabreytingar, flestar frá heimsstjórn. Þó ótrúlegt sé, tókst að klára þær allar í tíma og kosningar í kjölfarið. Mest eftirvænting var í kringum tillögu um hækkun á árgjöldum um $15 dollara, en skemmst er frá því að segja að henni var vísað aftur til stjórnar. Hinar voru flestar tiltektartillögur í kjölfar þess að klúbbalögum verður breytt á næsta starfsári. Litlar umræður urðu um tillögurnar, og ef þær urðu úr hófi þá var gripið til ákvæðis að kjósa um að hætta umræðu og ganga til atkvæða. Þrír voru í framboði til heimsforseta 2014-2015. Strax í fyrstu umferð hlaut Kanadamaðurinn John Button hreinan meirihluta.
Kosning heimamanna á nýjum heimsstjórnarfólki gekk snurðulaust, endan allar kosningar nú rafrænar og úrslitin nánast samstundis komin risaskjái.  Sjálfkjörnir kjör- og heimsforseti voru þeir Tom DeJulio frá New York og  Gunter Gasser frá Austurríki. Næsta þing verður í Vancouver í Kanada.

Við þingsetningu voru Ragnar og Sigga kynnt og á lokaathöfn var ég kynntur sem nýr heimsstjórnarmaður, reyndar konulaus, en fékk þó að hafa Hjördísi mér við hlið þegar umdæmisstjórar og –ritarar  fyrirmyndarumdæma voru sérstaklega kynnir. Ekkert galaball er á heimsþingum þannig að þinginu lýkur formlega á laugardegi, en þess má þó geta að hópurinn heimsótti hið fræga “Franska hverfi” um kvöldið og setti lokapunktinn yfir skemmtilegt þing og ánægjulega Kiwanissamveru.
 
ÓG