Af þingaflakki og framboðsmálum

Af þingaflakki og framboðsmálum


Í  Kiwanis þá er sumarið tími  Evrópu–  og heimsþinga.  Blásið var til Evrópuþings í Bergen í Noregi  8-10 júní ,  en heimsþing var haldið í New Orleans  í BNA  28. júní – 1 júlí.  Umdæmisstjóri  Ragnar og kjörumdæmisstjóri Hjördís ásamt mökum sóttu bæði þingin í embættiserindum, sátu Evrópuráðs-fundi, sóttu fræðslu og sinntu þingstörfum.  Undirritaður sótti  Evrópuþing sem formaður fjölgunarnefndar Evrópu auk þess að sinna formlegu framboðsstússi.
 
Aldrei þessu vant þá fjölmenntu umdæmisfélagar ekki til Evrópuþings, enda ekki skipulögð ferð í boði.  Reyndar var þingið frekar fámennt og lengi stóð í járnum með að tilskilinn fjöldi skráðra þingfulltrúa nægði til að gera það löglegt.  Aðrir landar á svæðinu voru forseti Eldeyjar, Eyþór og kona hans Ásgerður,  Inga Guðbjartsdóttir Sólborgu og Atli Þórsson Eldfelli.   Almennt er talað um Bergen sem rigningarbæli en hvernig sem því háttaði þá var dýrindis veður alla dagana sem hópurinn dvaldi í þessari fallegu borg.  Mikið fór fyrir stífkrampaverkefninu í kynningu og fræðslu og greinilegt að margar Evrópuþjóðir eru að gera góða hluti.  Í öðrum fasa verkefnisins er gert ráð fyrir að skipaðir séu tengiliðir í hverjum klúbbi og klúbbar beðnir um að skoða möguleika á að verða svonefndir „módelklúbbar“ (sjá viðhengi), sem heit að leggja verkefninu sem svarar $750 á félaga 2011-2015. Þingið var hefðbundið og umræður litlar. Ný fjárhagsáætlun var samþykkt ásamt reikningum fyrra árs. Að undangenginni afsökunarræðu fráfarandi Evrópuforseta  og skýringa og greinargerð fyrir álit  rannsóknarnefndar vegna reikninga 2009-2010 var að frumkvæði umdæmisstjóra Ragnars samþykkt að leggja umræðu um viðkomandi reikninga endanlega til hliðar.
Kosningar embættismann hafa jafnan sett svip sinn á Evrópuþing, en í þetta sinn var sjálfkjörið í þau tvö embætti  sem oftast er slegist um. Vincent Salembier, fyrrverandi umdæmisstjóri Belgíu Lúx, var kosinn sem varaforseti og undirritaður til heimsstjórnarsetu.  Nýr Evrópuforseti, Ernst von Weppen frá Þýskalandi, stjórnaði svo  sínum fyrsta Evrópustjórnarfundi á sunnudagsmorgni.  Þar varð ég þess aðnjótandi að heimsforsetaþrenningin,  Evrópustjórn og embættismenn sungu afmælissönginn til heiðurs mér 6tugum. Heimferðin gekk vel og mikill munur að geta flogið beint á þingstað, frekar en að eyða ómældum tíma í misjöfnum flugstöðum
 
[ÓskarG]