Slá golfbolta kringum landið

Slá golfbolta kringum landið


„Þetta hefur gengið mjög vel, við vorum að spila í alla nótt og vorum í nokkra stund að reyna að slá yfir Þjórsá,“ segir Þorsteinn Einar Einarsson, Kiwanismaður úr Kópavogi, en Kiwanismenn slá nú golfbolta hringinn í kringum landið í fjáröflunarskyni.
Áheitum er safnað á slegin högg og stefnt er að því að þau verði ekki fleiri en 9.500.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra reið á vaðið og skaut fyrstu kúlunni við Rauðavatn á miðnætti.
 
„Við erum að koma á Hvolsvöll, við ætlum að hvíla okkur þar og ætlum síðan að halda áfram síðar í dag,“ segir Þorsteinn.
Að sögn Þorsteins er áætlað er að hringnum verði lokað í Reykjavík þann 2. júlí þegar Stefán Eiríksson, lögreglustjóri í Reykjavík mun slá lokahöggið og þá liggur líka fyrir hversu mikið hefur safnast, en Kiwanismenn safna fé með tiltækinu. Annars vegar fyrir sambýli í þeim bæjarfélögum þar sem Kiwanisklúbbar eru starfræktir og hins vegar fyrir alþjóðaverkefni Kiwanis um að útrýma stífkrampa í heiminum.
„Annars getur vel verið að við verðum búin fyrr, við erum strax á undan áætlun,“ segir Þorsteinn.
Söfnunin hefur líka gengið vonum framar, en þegar hafa safnast tæpar fimm milljónir. „Við áttum von á að safna í mesta lagi fimm milljónum í heildina,“ segir Þorsteinn. „Þannig að þetta gengur eins og í sögu og meira en það.“
Allir geta tekið þátt í þessum stóra golfhring Kiwanismanna og greiða þá 5.000 krónur fyrir höggið, sem rennur til fyrrgreindra málefna.
Um er að ræða samstarfsverkefni Kiwanisklúbbanna á landsvísu og munu þeir leysa hver annan af. Alls eru þetta um 1350 kílómetrar og slegið er sem mest nálægt þjóðvegi 1.
 
mbl.is greindi frá  sjá HÉR