Kiwanishúsið við Engjateig  selt

Kiwanishúsið við Engjateig  selt


Í gær var undirritaður kaupsamningur um sölu á Kiwanishúsinu við Engjateig en húsið hefur verið til sölu undanfarið. Seljendur eru Engjateigur 11 ehf. sem eru nokkrir kiwanisklúbbar og kiwanisfélagar, Kiwanisumdæmið og neðri hæðina átti Vinnumálastofnun. Kaupandi er Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og munu þeir flytja starfsemi sína í húsið en þeir hafa haft aðstöðu í Bankastræti.
Það voru þeir Sigurður R. Pétursson og Stefán K. Guðnason frá Engjateig 11 ehf og Ragnar Örn Pétursson umdæmisstjóri sem undirrituðu kaupsamninginn ásamt Hauki Hafsteinssyni framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðsins og Gissuri Péturssyni framkvæmdastjóra Vinnumálastofnunar. Húsið verður afhent nýjum eigendum 15. janúar 2012.
Það er ljóst að mikil vinna er framundan við að tæma húsið og ljóst að kalla þarf til fjölmarga félaga til að aðstoða við þá vinnu. Það eru eflaust blendnar tilfinningar sem bærast í mönnum við þessar breytingar. Kiwanishúsið við Engjateig hefur verið akkeri hreyfingarinnar en í seinni tíma verður þó að viðurkennast að húsið hentaði orðið ver til notkunar fyrir hreyfinguna. Það voru eldhugar sem komu þessu af stað á sínum tíma og ákvörðun um byggingu hússins hefur verið sterk stoð í uppbyggingu hreyfingarinnar.
Nú eru kaflaskipti og því þarf að huga að framtíðinni hjá þeim sem hafa haft aðstöðu í húsinu. Umdæmið er þar á meðal og nokkuð ljóst að finna þarf nýjan samastað.
Þá munu klúbbarnir ef þeir eru ekki byrjaðir á því að velta fyrir sér framtíðaraðstöðu sinni til fundahalda.
 
Ragnar Örn Pétursson umdæmisstjóri