Ánægjulegur svæðisráðsfundur í Óðinssvæði

Ánægjulegur svæðisráðsfundur í Óðinssvæði


Ég átti þess kost að sitja fyrsta fund í breyttu Óðinssvæði sem haldinn var í Kiwanishúsinu á Akureyri síðasta laugardag. Fulltrúar allra klúbbanna níu í svæðinu mættu á fundinn en alls sátu  33 félagar þenna fyrsta fund. Svæðisstjóri Sigurjón Pálsson stjórnaði fundinum af sinni alkunnu röggsemi og hafði vit á því að setja ávarp mitt á dagskrá sem síðasta lið fyrir matarhlé til að tryggja enga sérstaka langloku frá umdæmisstjóranum.
Skýrsluskil voru til fyrirmyndar og það er ljóst að mikill kraftur er í öllu kiwanisstarfinu norðan heiða og frá upphafi starfsárs hafa sex nýjir félagar gengið til liðs við hreyfinguna. Þá mun það vera mikill styrkur fyrir svæðið að fá til liðs við sig klúbbana á Sauðárkróki og Siglufirði. Bjarni Magnússon úr Grími í Grímsey flutti skýrslu klúbbsins í fjarveru forseta en í máli Bjarna kom m.a. fram að félagar væru mikið fjarverandi vegna vinnu sinnar og nú væri þannig ástatt að öll stjórn klúbbsins væri saman á einum bát og ekki hefði sést til hans í hálfan mánuð. Þá væri oft erfitt að fá fyrirlesara á fund til þeirra vegna færðar og fjarlægðar, það væri helst að gripa lækna þegar þeir væru á ferðinni.
Emelía Dóra Guðbjartsdóttir erlendur ritari og tengiliður við Færeyjasvæði sótti þennan fund með mér og ávarpaði fundinn og sagði frá samskiptum sínum við klúbbana í Færeyjum. Í lok fundar afhentu klúbbarnir í Óðinssvæði  barnadeild sjúkrahúsins á Akureyri styrk til kaupa á vöktunartæki.
Eftir svæðisráðsfundinn var haldið til Lautarinnar á Akureyri sem er athvarf fyrir fólk með geðraskanir en þar afhenti ég og Emelía Dóra fulltrúi K-dagsnefndar styrk frá K-dagsnefnd að upphæð 5.5 milljónir króna. Nánar verður gerð skil á þessari styrkveitingu síðar.
Ágætu Kiwanisfélagar í Óðinssvæði, bestu þakkir fyrir góðar móttökur og gangi ykkur sem best í ykkar störfum á næstunni
Ragnar Örn Pétursson umdæmisstjóri