Fyrsta svæðisráðstefna Færeyjasvæðis.

Fyrsta svæðisráðstefna Færeyjasvæðis.


Undirrituð mætti fyrir hönd umdæmisins á fyrstu svæðisráðstefnu Færeyjasvæðis laugardaginn 5. nóvember.  Góð mæting var og mikill hugur í færeyingum nú þegar Færeyjar eru orðnar sér svæði.  Svæðisstjórinn Elin Joensen hefur unnið stórkostlegt starf við þýðingu á klúbbalögum, lögum umdæmisins, efni vegna stjórnarskipta og stefnumótun umdæmisins frá íslensku yfir á færeysku.
Forsetar lásu skýrslur og meðal annars var fjallað var um þátttöku í heimsverkefni og fjölgun félaga.  Ég kom svo inn á sama efni í ræðu minni og las m.a. bréfið frá útbreiðslunefnd sem sent var til allra verðandi forseta og verðandi svæðisstjóra.  Einnig lagði ég áherslu á góða samvinnu og góð samskipti á milli Íslands og Færeyja og hvatti þau til að senda inn fréttir á kiwanisvefinn og í Kiwanisfréttir.  Almenn ánægja var með að fræðsluefni hafði verið þýtt yfir á dönsku þegar fræðslan var á Höfn.  Umhugsunarefni er að færeyingar ná ekki að fylgjast með öllu því sem fram fer á umdæmisþingi og það hamlar því að þeir geti farið með heim í farteskinu það sem fjallað er um og mun ég í því sambandi sem tengiliður milli Færeyja og Íslands einbeita mér að því að því verði komið í betra horf, því alltaf má gera betur.

Ég vil þakka færeyingum fyrir frábærar móttökur og hlakka til áframhaldandi samstarfs.

Emelía Dóra Guðbjartsdóttir
erlendur ritari og tengiliður milli Íslands og Færeyja