Ferð á heimsþing Kiwanis í Genf 6.-19. júlí 2011

Ferð á heimsþing Kiwanis í Genf 6.-19. júlí 2011   Ferðahópurinn mætti í Leifsstöð fljótlega upp úr hádegi miðvikudaginn 6. júlí, samtals 24 þar af 10 Kiwanisfélagar víðsvegar af landinu. Óskar Guðjónsson umdæmisstjóri og hans kona Konný Hjaltadóttir bættust í hópinn í Genf að loknu heimsþingi.
  Farið var í loftið á tilsettum tíma kl. 17.00 með flugvél Icelandair.  Eftir   tæplega fjögura tíma flug lentum við í Mílanó á Ítaliu. Þar beið okkar 50 manna rúta frá Tékklandi sem var svo okkar fararskjóti út ferðina.   Var haldið rakleiðis á næturstað á Hóltel Vindsor í Mílanó. Vorum við komin þar   klukkan   langt gengin í eitt að staðartíma.
 
 
Næsta morgun fimmtudaginn 7. júlí var haldið rakleiðis í átt til Genf á heimsþingið sem hófst reyndar daginn áður með móttöku þingfulltrúa og fræðslu fyrir stjórnendur klúbba. Eftir hnökralausa ferð m.a. gegnum  tæplega 12 km löng Mont Blank jarðgöngin, en þau stytta leiðina milli Mílanó og Frakklands um 100 km  vorum við komin á áfangastað kl. 14.30.  Áfangastaðurinn var Hótel Campanille í bænum Annemasse í Frakklandi  rétt við landamærin að Sviss.  Eftir að hafa losað okkur við töskurnar og konurnar fórum við Kiwanisfélagar rakleitt til þingstaðar í Genf. Þangað er um 20 mín akstur.  Þegar þangað var komið var þingsetningu að ljúka   svo við gerðum ekki annað en að skrá okkur inn á þingið,   fá þinggögn og líta í kringum okkur á þingstaðnum.  Þingið var haldið í einni af stærstu ráðstefnu og sýningahöll Evrópu - Palexpo - sem er í næsta nágrenni við flugvöllinn í Genf.


  Föstudagsmorguninn fórum við Kiwanisfélagar á þingið en konurnar og Ólafur Sigmundsson fóru til Genfar  í miðborgina undir  leiðsögn Evu Maríu Hilmarsdóttur fararstjóra.  Skoðuðu þau miðborgina og fóru í siglingu um Genfarvatn  sem er eitt af stærri vötnum vestur Evrópu.
  Eins og gefur að skilja er heimsþing fjölmenn samkoma samtaka sem hafa á að skipa 300 þúsund félögum en 600 þúsund ef allir sem tengjast Kiwanis eru taldir með. Sagt er að Kiwanisklúbbar í heiminum séu 8600 talsins. Hver klúbbur á rétt á tveimur fulltrúm þannig að liðlega 17 þúsund manns hafa átt rétt á þingsetu.  Ég veit ekki hvað margir sóttu þingið, gæti trúað að þeir hafi verið á annað þúsund.
  Þingstaðurinn er stór bygging enda voru haldnir fundir og fræðslur í sjö sölum samtímis. Það var því af nógu að taka í sambandi við fræðslu. Má þar nefna: “Hvernig verð ég að liði við Eliminate verkefnið”  sem er nýtt   samstarfsverkefni UNICEF og KIWANIS til að útrýma stífkrampa í ungabörnum í heiminum. - Konur í Kiwanis. – Hvernig kynni  ég klúbbinn minn. – Heimasíður klúbba. – Fræðsla fyrir verðandi leiðtoga Kiwanis. – Hvernig geri ég Kiwanisfundina markvissari. – Fræðsla um notkun Facebook og Twitter í þágu klúbbanna, o.s.frv.
  Þarna var  líka verslun með vörur merktar Kiwanis s.s. fatnað, glös og könnur, töskur og minjagripi svo eitthvað sé nefnt.  Þá var þarna kaffitería þar sem hægt var að kaupa heitar máltíðir og einnig kaffibar þar sem á boðstólnum voru léttar veitingar.
  Eftir hádegi var svo fundur í aðalfundarsalnum þar sem fluttar voru ársskýrslur  aðalstjórnar og aðal stofnana KI. Þá voru einnig kosið  til  aðalstjórnar KI. Andrés okkar Hjaltason var þar í framboði en náði því miður ekki kosningu.
  Þegar þingfundi lauk seinnipart dags beið okkar rútan  og var haldið í miðborgina og konurnar og Óli sótt. Urðu að vonum fagnaðarfundir. Við karlarnir kannski mest fegnir því hvað Evu hafði tekist að halda konunum frá búðunum! 

  Á laugardagsmorguninn var lagt snemma af stað frá hótelinu, ekki á þingið heldur í vínsmökkun.  Í þessum hluta Sviss er mikil vínræktun.  Heimsóttum við vínbónda sem er ekki  með mikinn rekstur en lífrænan. Notar s.s. engin lyf eða eiturefni við ræktunina.
 Var staldrað   hjá honum í um tvo tíma og smakkaðar ca. tíu tegundir rauð- og hvítvína. Fóru sumir klyfjaðir af  víni frá honum.  Var það kátur og hress hópur sem hélt síðan á þingstað til að vera við þingslit.  Þingslitin hófust kl. 14.00  með ræðu heimsforsetans Sylvester Neals. Síðan voru veittar ýmsar viðurkenningar, kunngerð úrslit kosninga dagsins áður og verðandi heimsforseti Kiwanis Alan Penn kynntur og hans fjölskylda. Aðal ræðumaður dagsins var leikkonan  Jamie Lee Curtis.
  Þó þingið væri haldið í Evrópu var yfirbragðið býsna amerískt. Ég hugsa að þeir sem prédika jakkaföt og bindi á Kiwanisfundum hefðu fengið áfall hefðu þeir séð klæðaburðinn á sumum eða kannski flestum þingfulltrúa. Þó held ég að evrópufulltrúarnir hafi skorið sig úr með snyrtilegri klæðaburði.
   Að sjálfsögðu er mikill viðburður að mæta á svona stóra samkomu þó svo ekki væri hægt að tileinka sér nema brot af því sem var í boði.  Tvímælalaust eykst Kiwanisandinn  á samkomu sem þessari.

  Á sunnudagsmorguninn 10. júlí var haldið frá hótelinu í Frakklandi um kl. hálf ellefu áleiðis til Interlaken í Sviss. Interlaken er bær á eiði milli tveggja  vatna Brienz og Thun með rúmlega 5300 íbúa. Áin Aare rennur á  milli vatnanna   í gegnum bæinn, einkennilega blá á litinn. Vorum   komin á hótelið - Hótel Oberland - um kl. 14. Rigning var alla leiðina, en þegar við vorum nýkominn á hótelið gerði feikna skúr og haglél. Upp úr því gerði sól og hlýtt eins hafði verið undanfarna daga.  Skoðuðu ferðafélagarnir bæinn og fengu sér að borða, enda úrval veitingastaða mikið.

   Mánudagsmorguninn rann upp bjartur og fagur. Kl. 10 var haldið til bæjar sem heitir Grindelwald inn á milli hárra fjalla í um 1000 m hæð yfir sjávarmáli  . Átti að skoða þröngt árgljúfur svo þröngt að hægt væri að teygja sig á milli veggja. Gletscherschluts = jökulgljúfur er það kallað í ferðalýsingunni.  Rútan mátti ekki fara lengra en að járnbrautarstöðinni, var því gengið þaðan í liðlega hálftíma eftir skiltum sem vísuðu á Gletscherschluts.  Þegar komið var að veitingastað við gljúfurmunnan kom í ljós að þetta var ekki hið þrönga gljúfur sem ætlunin var að skoða, heldur annað nokkuð mikið víðara.  Var látið gott heita og farið inn í gljúfrið eftir stíg sem hangir utan í gljúfurveggnum eða hogginn í hann. Hrikalegt gljúfur og beljandi fljót.  Eftir um klukkutíma göngu fram og til baka, hvíld og afslöppun á veitingastaðnum var tekinn strætisvagn til baka til Grindelwald.  Skoðuðum okkur um í bænum sem er mikill ferðamannabær með tæplega 4000 íbúa, Bæinn heimsækir skíðafólk á veturna en  göngufólk og aðrir ferðamenn á sumrin.  Vorum komin heim  á hótelið  um kl. 17.  Gafst því tækifæri til að skoða Interlaken betur. 

  Þriðjudaginn 12. júlí var á dagskránni að fara á Jomfrúna sem er í 3454 m hæð í  Svissnesku Ölpunum. En fyrst var farið inn fyrir þorpið  Lauterbrunnen inn í þröngan dal, girtan nokkur hundruð metra háum, nærri lóðréttum fjallshlíðum. Erindið að skoða fossa sem falla niður í dalinn inni í fjallinu. Trummelbachfalle heita þessir fossar.  Byrjað var á því að fara með lyftu 100 m upp inni í fjallinu. Þá er komið inn í göng eða sprungu í berginu þar sem taka við tröppur og pallar utan í bergveggnum upp um 200 m til viðbótar.   Er hægt að ganga upp með með beljandi vatnsflaumnum sem sturtast niður í fossum eða strengjum 20.000 lítrar á sekúndu. Fossarnir 7 sem eru inn í flallinu eru upplýstir með ljóskösturum. Þegar farið er niður er farið til hliðar við lyftuna. Þar opnast sprungan og eru þar 3 fossar til viðbótar.    Er þetta mikið sjónarspil samfara miklum hávaða.
  Að þessari skoðun lokinni var farið til baka á járnbrautarstöðina í Lauterbrunnen, en þar skildi taka lest upp á Jómfrúna.  Lestin er frábrugðin venjulegum lestum að því leiti að hún er drifin áfram með tannhjólum svo hún geti farið upp og niður brattar brekkur. Farið var með viðkomu í þorpinu Wengen sem er á sillu í fjallinu í 1274 m hæð. Þangað er enginn bílvegur, því lítið um bíla á götunum. Wengen er einn af þessum bæjum í Ölpunum sem þrífast á skíðafólki á veturna, en ferða  og göngufólki á sumrin. Eftir tæplega klukkutíma ferð um grasigrónar hlíðar með kýr á beit var komið til brautarstöðvar sem heitir Kleine Scheidegg í  um 2060 m hæð. Þar þurftum við að skifta um lest. Til hægri þegar komið er á brautarstöðina frá Wengen gnæfa tignarlegir fjallstindar, krýndir snjóhettum, Eiger, Mönch og Jungfrau.  Skriðjöklar koma niður fjallaskörðin. Á veturna er Kleine Scheidegg miðja þriggja skíðasvæða sem liggja þaðan  í allar áttir.

   Eftir nokkra bið kemur lestin og er búið að ætla okkur fremsta vagninn. Lestin silast upp brekkuna í átt að fjöllunum hrikalegu. Á hægrihönd sér niður í dalinn í átt að Lauterbrunnen.  Eftir skamma stund er komið að lítilli lestarstöð Eigergletscher. Eftir stutt stopp er silast áfram, en eftir stutta stund fer lestin inn í fjallið og brattinn eykst, verður allt að 25%.  Göngin sem eru 9,3 km að lengd ná upp í skarðið á milli fjallatindanna Mönch  og Jongfrau  liggja inni í fjöllunum sem bera tindana Eiger og Mönch.  Gröftur á göngunum hófst árið 1896 og tók 16 ár. Þau voru vígð 1. ágúst 1912, verða því 100 ára næsta sumar.  Löngu áður eða upp úr aldamótunum 17-1800 voru auðmenn og verkfræðingar í Sviss farnir að hugleiða hvernig væri hægt að komast þarna upp með einhverjum vélrænum hætti eftir að Jongfrau tindurinn var fyrst klifinn 1811.  Það var svo 1893 sem  athafnamaður að nafni Adolf Guyer-Zeller fékk þessa djörfu hugmynd að grafa göng inni í fjallinu. Meira að segja í dag myndi þetta þykja djörf hugmynd  hvað þá fyrir rúmlega 100 árum þegar allt varð nánast að vinnast með handafli. Tókst honum að sannfæra stjórnvöld í Sviss um að þetta væri arðvænleg framkvæmd og lagði einnig til   fjármagn úr eigin vasa. Hann reyndist sannspár því rekstur gangnanna hefur skilað hagnaði frá fyrsta degi öll þessi hundrað ár að einu undanskildu. Hvað um það, við silumst upp brattann þar til  við stoppum stutta stund á útsýnisstað inni í nánast þverhníptu fjallinu í 2865 m hæð sem kallaður er Eigerwand. Þar höfum við útsýni niður til Grindelwald  og Kleine Scheidegg. Enn er lagt á brattann þar til við komum á annan útsýnistað Eismeer í 3160 m hæð. Þá höfðum við tekið nánast U beygju inni í fjallinu án þess að verða þess vör. Hérna höfum við útsýni niður skriðjökulinn Fiescherggletscher,  í móðunni glittir í vatnið Thun og Interlaken þar sem hótelið okker er. Enn er haldið upp en brattinn hefur minnkað. Eftir 3,6 km erum við komin á leiðarenda, brautarstöðina á Jongfraujoch  í 3454 m hæð. Hæsta járnbrautarstöð í Evrópu, á góðum degi er sagt að 20.000 manns fari hér um.
   Þegar við stígum út úr lestinni leynir þunna loftið sér ekki, því betra að flýta sér hægt. Við byrjuðum á því að taka lyftu upp um tvær hæðir. Síðan tók við gangur upp sem nam einni hæð í viðbót a.m.k.  út á snæviþakinn útsýnisstað með stórfenglegt útsýni til allra átta.  Staldrað þar við dágóða stund, notið útsýnisins og teknar myndir þó hann væri nokkuð svalur, hitastigið nálægt frostmarki í þessari hæð. Á svæði þessu undir jöklunum er sagt að séu vatnaskil. Það vatn sem rennur í átt að Grindelwald rennur alla leið til Norðursjávarins. Það vatn sem kemur úr jöklunum og rennur til suður, rennur í Miðjarðarhafið.
    Á leiðinni niður  af útsýnispallinum var komið við  þar sem kallað er Ice palace. Íshöll þessi sem var fyrst  grafinn inn í jökulinn 1934 hefur að geyma ýmis listaverk sem eru einnig úr ís. Vegna hreyfingar jökulsins  þarf hún stöðugt viðhald og er að sögn endurnýjuð árlega. Eftir hringferð um íshöllina tvístraðist hópurinn, sumir fengu sér að borða í einhverjum af a.m.k þrem veitingastöðum þarna uppi sem eru með útsýni niður skriðjökulinn  Aletsch  (aletschgletscher), en hann er lengsti skriðjökull Alpanna, 23 km. Þarna er að sjálfsögðu einnig verslun með minjagripi. Aðrir tóku sér göngu eftir nokkuð löngum gangi þar sem þunna loftið sagði aftur til sín, að lyftu sem flutti okkur um 100 m, upp í 3571 m hæð   á fjallstind  þar sem er   veðurathugunar og vísindastöðin Sphinx.  Þarna uppi er góður útsýnispallur og útsýnið stórfenglegt.
   Eftir þriggja tíma dvöl á Jongfraudoch var haldið niður með síðustu lest kl. 17.40 því eins gott að missa ekki af lestinni. Ferðin niður til Kleine Scheidegg tók tæpan hálf tíma. Vorum komin á hótelið um  kl. 19.30 eftir góðan og eftirminnilegan dag.

   Kominn miðvikudagur og tími til að yfirgefa Interlaken þó vel hafi verið hægt að hugsa sér að vera nokkra daga í viðbót því nóg var eftir að skoða. Lagt af stað kl. 10 og stefnt til Chamonix við rætur Mont Blanc í Frakklandi með viðkomu í Bern höfuðborg Sviss eftir klukkutíma akstur.  Ekki var um skipulagða skoðunarferð að ræða en allir gengu í miðborgina yfir brú á ánni Aare  þeirri sömu og rann gegnum Interlaken. Miðborgin var sett á heimsminjaskrá UNESCO 1983 sökum þess að hún hefur haldið upp upprunalegu formi sínu. Gaman að ganga um götur miðborgarinnar með sínar gömlu byggingar, líta í búðir og fá sér hressingu. Fór reyndar að rigna hressilega í lokin, var þá betra að hafa tekið með sér regnhlífina. Þeir sem ekki voru svo forsjálir blotnuðu vel. Eftir hálfs annars tíma stopp  var haldið rakleitt til Chamonix. Þangað var komið kl. 15.30 á Hótel Merkúr rétt við miðbæinn. Enn rigndi mikið.  Fóru því flestir í mat á hótelinu um kvöldið. Kokkurinn fékk misjafna dóma fyrir matinn því “vel dönn” vildi vera hrátt o.s.frv. Eftir matinn hafði stytt upp og fóru þá flestir í bæinn að skoða sig um. Var margt manna á götum bæjarins enda þjóðhátíðardagur Frakka   daginn eftir. Virðast Frakkar byrja að halda upp á daginn kvöldið áður. Var því mikið um dýrðir í bænum m.a. góð flugeldasýning um kl. ellefu.
   Chamonix  sem er í 1030 m hæð er mikill ferðamannabær. Þar búa tæplega 10.000 manns en fjöldi ferðamanna  er sagður 5 milljónir árlega. Aðallega skíðafólk á veturna,  göngufólk og fjallaklifrarar á sumrin. Í þessum bæ voru fyrstu vetrarolympíuleikarnir haldnir árið 1924.

  Fimmtudagurinn 14. júlí þjóðhátíðardagur Frakka rann upp ekki bjartur en besta veður.  Ætlunin var að fara með kláfi upp í hlíðar Mont Blanc strax um morguninn. En skýjað var niður í miðjar hlíðar svo því var frestað fram yfir hádegi. Þá hafði glaðnað til og farið að glitta í tinda Mont Blanc.  Var því steðjað að kláfnum fylktu liði. Þegar Eva María ætlaði að kaupa miðana fyrir hópinn var henni tjáð að það væri farið að þyngja aftur uppi, því tvísýmt um skyggni.  Var Mont Blancferð frestað til morguns. Fóru þá flestir í miðbæinn að skoða búðir og umhverfið það sem eftir var dagsins í sól og blíðu.

   Föstudagur. Farið í bítið til kláfsins, þó skýjabakki lægi á fjallsbrúninni, með von um að þokunni færi að létta, sem kom á daginn. Þegar kláfurinn kom upp fyrir brúnina var heiður himinn. Kláfurinn fer upp á stað sem heitir Plan de l´ Aiguille í 2317 m hæð. Héðan liggja gönguleiður m.a niður í Chamonix. Til að halda áfram upp á   tindinn Aiguille du Midi í 3842 m hæð þurftum að skipta um kláf. 
   Nafn tindsins sem þýðir „hádegisnálin“ er tilkomið vegna þess að sólin er beint yfir tindinum þegar horft er á hann á hádegi frá bænum Chamonix. Ferð seinni kláfsins sem tekur a.m.k. 70 manns er dágóðan hluta leiðarinnar lóðrétt upp með hamraberginu. Er sagt að það sé heimsmet í lóðréttu klifri kláfs. Var ekki laust við að færi um suma. Þegar á  tindinn er komið blasir við stórfenglegt útsýni   í allar áttir af mörgum útsýnispöllum. Chamonix nánast undir fótum okkar.  Mont Blanc tindurinn gnæfir í suðri tæplega 1000 m ofar. Frá Aiguille du Midi tindinum liggja margar gönguleiðir m.a. á Mont Blanc. Mátti í sjónauka sjá nokkra hópa fjallgöngumanna á leið á tindinn. Tjaldbúðir þeirra voru á snjóbreiðu um 200 fyrir neðan útsýnispallana. Aðrir hópar sáust á öðrum leiðum um Alpana.  Þarna uppi eru að sjálfsögðu veitinga og minjagripasölur. 
   Þá er hægt að fara með litlum kláfum sem taka einungis fjóra farþega lárétta 5 km leið   meðfram Mont Blanc á tind sem heitir Helbronner. Er sá tindur á landamærum Frakklands og Ítalíu. Það voru ekki allir sem fóru þessa leið, sneru við, fóru aftur niður í bæ með kláfunum og náðu því að komast aftur í morgunmat á hótelinu. Þeir sem fóru með kláfunum til Helbronner urðu ekki fyrir vonbrigðum, útsýnið var stórkostlegt.  Þar mátti m.a. sjá gönguhópa á ferð á jöklinum Glacier Geant, lengsta skriðjökli Frakklands   og fjallaklifrara í lóðréttum bergveggjum. Á tindinum Helbronner gekk maður yfir hvíta línu á útsýnispallinum, var þá kominn yfir landamærin til Ítalíu.  Þar var hægt að kaupa sér hressingu og minjagripi að sjálfsögðu. 
   Nú var ekki til setunnar boðið því ferð til borgarinnar Annecy var fyrir dyrum. Ferðin til baka til  Aiguille du Midi tók 30 mín   og  20 mín niður af fjallinu.

   Við vorum kominn niður á hótel kl. 11, rútan mætt og því rétt tími til að skipta um skó.  Var síðan ekið rakleitt til Annecy.  Annecy er gamall bær sem byrjaði að byggjast snemma á tólftu öld beggja megin árinnar Thiou við ósa hennar að Annecy vatni.  Stór hluti hennar brann á fyrri hluta fimmtándu aldar en var byggður upp aftur. Eru húsin í gamla bænum sennilega mörg frá þeim tíma. Fundist hafa minjar við vatnið sem benda til þess að þarna á þessu svæði hafi hafi verið búseta 3100 árum fyrir Krist.
  Ber mikið  á kastala miklum Château sem gnæfir yfir bæinn. Var hann byggður um aldamótin 13-1400.  Annar kastali Palais de l´isle  sem  er í miðri ánni var byggður á tólftu öld. Kallaður gamla fangelsið  því hann var lengst af fangelsi. Sumum fannst hann minna á fangelsið á Skólavörðustígnum. Báðir þessir kastalar eu núna söfn. Einnig eru  í bænum tvær gamlar kirkjur..  Það var því af nógu að taka til að skoða. Einnig var hægt að fara í siglingu um vatnið sem sumir notfærðu sér.
   Var hópnum gefið  sjálfsvald í hvað fólk vildi gera þessa fjóra tíma sem  átti að dvelja í bænum. Flestir byrjuðu á því að fá sér eitthvað í svanginn sem var reyndar hægara sagt en gert því allar götur meðfram ánni voru stappaðar af fólki og veitingastaðir þétt setnir.  Þó mátti heita að veitingastaður væri í hverju húsi beggja megin ár.  Heim til Chamonix var haldið kl. 17.00 eftir góðan og eftirminnilegan dag.

   Laugardagurinn 16. júlí.  Þá var komið að því að yfirgefa Alpana og halda í áttina heim   með viðkomu í París. Var lagt af stað kl. 9  því löng rútuferð var fyrir höndum, liðlega 600 km. Tók ferðin allan daginn eða  níu og hálfan tíma með matarhléum og smávegis umferðartöfum. Komum á Hóel Mercury/Terminus sem er við hliðina á járnbrautarstöðinni Care du Nord um kl. 18.30 í þéttri rigningu. Var því lítið annað gert um kvöldið en að taka upp úr töskunum og fá sér í svanginn. Margir orðnir nokkuð lúnir eftir langa ferð.

  Kl. 10 á sunnudagsmorguninn fór allur hópurinn í göngu undir  leiðsögn Evu Maríu til nærliggjandi neðanjarðar lestarstöðvar.  Nú skildi okkur kennt að ferðast með neðanjarðarlest “Metro“ sem er nausynlegt að kunna til að geta farið á  ódýran og tiltölulega þægilegan máta um París. Mjög einfalt eins og annað sem maður kann. Ferðinni var heitið  að skoða Sacré Coeur kirkjuna á  Montmartre hæðinni í 18. hverfi. Er hún á hæsta stað Parísar og ber   hæst bygginga í borginni fyrir utan Eiffelturninn. Á kirkjutröppunum er því gott útsýni yfir borgina.  Kirkjan sem var byggð á árunum 1875 til 1914 er glæsilegt mannvirki utan sem innan. Sumir segja að hún sé fallegasta kirkja heims. Mannfjöldinn við kirkjuna segir sína sögu um frægð hennar. Sumir fóru inn í kirkjuna þó þar væri verið að syngja kaþólska messu.  Sagt er að kirkjuklukkan sé sú stærsta í Frakklandi. Kirkjan skemmdist nokkuð í síðari heimstyrjöldinni en var fljótlega lagfærð.
  Meðan á dvölinni við kirkjuna stóð gerði góða skúr og hvessti nokkuð. Var nú gengið aftur til Metróstöðvar og lestin tekin   niður til árinnar Signu. Nú skildi farið um borð í bát, sigla um ána í klukkutíma og snæða hádegisverð.  Var vel tekið á móti okkur, vel veitt í  víni og mat, einnig  leikið fyrir okkur á harmoniku og sungið.
  Þegar við höfðum fast land undir fótum aftur var skundað upp með Signu (eða niður) í átt að Eiffelturninum því nú skildi farið upp í hann. Þegar tilkom var orðið of hvasst til þess. Var því slegið á frest til morguns. Tvístraðist þá hópurinn, sumir fóru heim á hótel með Metrónum aðrir í göngu um borgina, litu á söfn, veitingastaði  eða búðir, enda af nógu að taka.

   Mánudagurinn 18. júlí var runninn upp. Mætt niður í anddyri hótelsins til fundar við fararstjórana. Til stóð að fara í Eiffelturninn, en enn var of hvasst til þess.  Tvístraðist því hópurinn aftur, sumir fóru í skoðunarferð með tveggjahæða útsýnisstrætó  um París, aðrir fóru aftur á Montmartre hæðina að ganga um þröngar götur  listamannahverfisins og feta i fótspor frægra listamanna eins og Van Gogh og Picasso.    Koma á listatorgið sem þar  málarar og teiknarar sitja við iðju sína og selja sín list.  Aðrir freistuðu þess að komast á  Louvre safnið að sjá Monu Lísu. Eins og áður sagði er úr nógu að velja í París og á há ferðamannatímanum eins og núna er hægara sagt en gert að komast inn í merkustu staðina eins og  Louvre og Pompidou söfnin eða Notre Dame dómkirkjuna  nema standa í margra tuga ef ekki hundruð metra löngum biðröðum.  En nóg er af kaffihúsunum og hinni rómuðu kaffihúsastemmingu á bökkum Signu.

   Þá er heimfarardagurinn runninn upp, þriðjudagurinn 19. júlí.  Þeir allra hörðustu fóru á fætur fyrir allar aldir til að komast í Eiffelturninn þó rigndi töluvert. Rútan var mætt og lagt af stað frá hótelinu kl. 11 til Charles de Gaule flugvallar.  Vorum komin tímanlega á flugvöllinn, en honum verður ekki hrósað fyrir úrval veitingastaða og verslana.  Var því lítið við að vera þar til við fórum í loftið kl. 14.30 á tilsettum tíma.  Lentum á Keflavíkurflugvelli kl. 16. Var notalegt að anda að sér  hreinu íslensku lofti eftir stórborgarloftið í París.
  Var nú komið að kveðjustund, faðmast og kysstst og þakkað fyrir samveruna í 13 daga. Diðrik, Böddi og Eva María  eiga þakkir skildar fyrir vel skipulagða ferð og skemmtilega eins og allar þær Kiwanisferðir hafa verið sem undirritaður hefur farið í.

Sigurður Skarphéðinsson
Kiwanisklúbbnum Mosfelli
  

 
  Mynda albúm má nálgast HÉR