Andrés náði ekki kjöri á heimsþingi

Andrés náði ekki kjöri á heimsþingi


Heimsþingi Kiwanis lauk á laugardaginn í Sviss en þingið stóð yfir í fjóra daga. Við áttum 10 fulltrúa á þinginu með atkvæðisrétt en um 1700 manns sóttu þingið. Mesta spennan var að sjá hvort Andrés K. Hjaltason fyrrverandi umdæmisstjóri næði kjöri sem  trustee at large eða ráðgjafi í heimsstjórn eins og við köllum það, en þrír voru í framboði um eina stöðu.
Það er óhætt að segja að við höfðum verið nokkuð bjartsýn á gengi Andrésar m.a. vegna þess að þingið var haldið í Evrópu og við þetta kjör máttu aðeins bjóða sig fram aðilar utan Ameríku.
Auk Andrésar voru í framboði kona frá Panama og karl frá Nýja Sjálandi. Á þinginu máttu allir kjósa, líka Bandaríkjamenn þó þeir mættu ekki bjóða fram.  Gunter Gasser frá Austurríki var í framboði sem verðandi heimsforseti eftir þrjú ár og á móti honum voru tveir Bandaríkjamenn. Gunter sigraði í fyrstu umferð með rúmlega 50% atkvæða og það gaf okkur góðar vonir með Evrópu sem hafði yfir þrjú hundruð atkvæði á þinginu.
Á Evrópustjórnarfundi sem ég sat í lok apríl var sammælst um að öll Evrópa myndi styðja framboð Gunters og Andrésar. Við vissum að Andrés myndi einnig fá atkvæði frá nokkrum umdæmum í Ameríku þar á meðal frá Ohio heimaumdæmi Alan Penn verðandi heimsforseta.
Niðurstaðan var sú að Ný Sjálendingurinn var kjörinn,  fékk  yfir 600 atkvæði, Panamastúlkan fékk um 400 atkvæði og Andrés rúm 200 atkvæði. Þetta segir okkur aðeins eitt að Evrópa hefur ekki staðið saman í þessu kjöri og ljóst að innan við þriðjungur Evrópuatkvæðanna  hefur skilað sér til Andrésar.
Það er  með ólíkindum að um 200 félagar okkar í Evrópu skulu hafa kosið annaðhvort aðila frá Panama eða Nýja Sjálandi.

Við munum ræða nánar um heimsþingið á umdæmisþingi okkar á Hornafirði í haust.

sumarkveðja
Ragnar Örn Pétursson kjörumdæmisstjóri