Umdæmisstjórnarfundur 16 apríl 2011

Umdæmisstjórnarfundur 16 apríl 2011


Umdæmisstjórnarfundur var haldinn s.l laugardag og m.a kom fram að 2,5 milljón króna hagnaður var  af starfemi Kiwanisumdæmisins Ísland-Færeyjar, á fyrstu 6 mánuðum starfsársins. Þetta kom fram á umdæmisstjórnarfundi sem haldinn í var í Kiwanishúsinu við Engjateig í Reykjavík um helgina. Þá sagði Atli Þórsson, umdæmisgjaldkeri, að reynslan væri sú að seinni hluti starfsársins væri alltaf kostnaðarsamari en fyrri hlutinn og því mætti búast við  minni hagnaði að starfsárinu loknu.
Óskar Guðjónsson, umdæmisstjóri ræddi starf stjórnarinnar og var bara nokkuð sáttur með starfsemi hreyfingarinnar í heild. Félögum í nokkrum klúbbum hefur fjölgað og þá hefur verið stofnaður nýr klúbbur í Keflavík, eingöngu skipaður konum. Og tveir græðlingsklúbbar með rúmlega 40 félögum eru í burðarliðnum og verða stofnaðir á næstunni.
Nokkrir klúbbar eiga erfitt uppdráttar eins og gengur.
Vandamál nokkurra þeirra eru að þar hefur endurnýjun yngri félaga setið á hakanum og klúbbfélagar orðnir of gamlir til endurnýjun yngri félaga sé líkleg. Og nokkrir hafa misst flugið af öðrum ástæðum. En flestir klúbbar eru á góðri siglingu. Starfið í Kiwanis er eins og lífið sjálf, breytilegt frá einum til annars og frá degi til dags.
Að venju fluttu svæðisstjórar skýrslur úr sínum svæðum og báru sig ágætlega yfir starfsemi sinna klúbba. Helst að þeir hafi áhyggjur af samskiptaleysi færeysku klúbbanna við umdæmisstjórn. Þaðan berast hvorki skýrslur né aðrar upplýsingar.
Fram kom á fundinum að jákvætt svar hefði borist við beiðni umdæmisins um frystingu erlendra gjalda m.v. gengi dollarsins 1. okt. 2008. Samsvarar það um 40% lækkun erlendra gjalda. Allir klúbbar hafa gert skil á gjöldum síðasta starfsárs.
Andrés Hjaltason hefur boðið sig fram sem Trustee at large, fulltrúi í heimsstjórn, og  lýsti fundurinn fyllsta stuðning við framboð hans.
Framundan er afhending á hjálmunum sem fara  til allra barna sem eru að hefja grunnskólanám. Fram kom hjá umdæmisstjóra, að nokkurt stríð hefði verið við Neytendastofu um þessa hjálma, þar sem þeir uppfylla ekki reglur til notkunar við skíðaiðkun. Var kostnaður við þann málarekstur á fjórða hundrað þúsund krónur, sem Eimskip tók að  sér að greiða, en þeir eru styrktaraðili þess verkefnis. Kannski dæmigert mál, þegar eftirlitskerfi ríkisins þarf að sanna tilverurétt sinn.
Þá flutti Gylfi Ingvarsson, formaður K-dagsnefndar, mikla ræðu um þetta verkefni og brýndi fólk mjög til dáða, og svo mikil var ákefð hans að einhverjir fundarmenn sáu ástæðu til að dempa umræðuna. Salan á K-lyklinum verður dagana 10.-14. maí næstkomandi.
Þá urðu nokkrar umræður um kiwanisvefinn, kiwanis.is. Fannst sumum að forsíða hans ætti að gera nýjustu fréttum hærra undir höfði en gert er og linka vantaði t.d. á K-lykilsverkefnið. Tómas Sveinsson var ekki á fundinum og var því ekki til andsvara, en hann verður upplýstur um umræðu fundarins´.
Þá kynnti Ragnar Örn Pétursson, verðandi umdæmissstjóri, stjórn sína og embættismenn. Og einnig stefnu sína varðandi fjölgunarmál og ný viðmið til fyrirmyndarklúbba.
Stefán Hornfirðingur Jónsson, sagði frá undirbúningi þeirra Ós-félaga fyrir Umdæmisþingið sem verður á Höfn í Hornafirði í september. Þar virðist allt á góðu róli og spenningur fyrir þessu þinghaldi.
Erlendur Fjeldsted, svæðisstjóri Grettissvæðis slúttaði síðan umræðum með stuttri skemmtisögu.
Fundurinn var bæði málefnalegur, gagnlegur og skemmtilegur  og skilaði hreyfingunni skrefi áfram.
 
Fréttaritari Gísli Valtýsson.
 
Myndir frá fundinum hér