Undirbúningur næsta starfsárs í fullum gangi

Undirbúningur næsta starfsárs í fullum gangi


Undirbúningur embættismanna sem taka við störfum í hreyfingunni næsta haust er í fullum gangi. Fræðslunefndin fór af stað fyrir nokkrum vikum og 12. mars s.l. var fræðsla fyrir verðandi svæðisstjóra. Um komandi helgi verður fræðsla fyrir verðandi forseta og fer fræðslan fram bæði í Reykjavík og Akureyri. Í fræðslunefndinni eru, Andrés K. Hjaltason formaður, Bragi Eyjólfsson, Hildisif Björgvinsdóttir, Sigurgeir Aðalgeirsson og Benóný Guðmundson. Verðandi ritarar og féhirðar fá síðan fræðslu á þinginu á Hornafirði í haust.
Búið er að ganga frá vali á öllum embættismönnum í umdæmisstjórn starfsárið 2011-2012 og mun ég kynna það formlega á umdæmisstjórnarfundinum 16. apríl n.k. Þá hafa fyrirmyndarviðmið klúbba og félaga  verið í endurskoðun og mun ég senda drög að nýjum fyrirmyndarviðmiðum til allra klúbba núna í apríl. Drög að þessum viðmiðum verða kynnt í forsetafræðslunni.
Þá er  starfandi vinnuhópur undir forystu Arnars Ingólfssonar að endurskoða Stefnumótun hreyfingarinnar og væntir hópurinn að drög að nýrri stefnumótun 2011-2016 liggi fyrir í lok apríl. Þau verða þá send út til allra klúbba sem geta gert sínar athugasemdir og viðbætur. Stefnumótunin verður síðan til umræðu og afgreiðslu á þinginu í haust.
 
En að sjálfsögðu eru bjartir tímar framundan, hjálmaafhending í lok apríl og K-dagurinn 10.maí Nú er um að gera að taka þessi mál til umræðu í klúbbunum og vera tímanlega að skipuleggja vinnuna og þá mun ekki standa á ánægjulegum niðurstöðum að þessu loknu
 
Með vorkveðju
Ragnar Örn Pétursson kjörumdæmisstjóri