Æðstu embættismenn Kiwanis og Rótarý báðir úr Kópavogi

Æðstu embættismenn Kiwanis og Rótarý báðir úr Kópavogi

  • 01.11.2010

Landsþing Kiwanis og Rótarý bæði haldin í Salnum
Á komandi vetri verða æðstu embættismenn tveggja landshreyfinga, Kiwanis og Rótarý, báðir Kópavogsbúar og félagar í klúbbum í Kópavogi. Umdæmisstjóri Kiwanis er Óskar Guðjónsson og umdæmisstjóri Rótarý Margrét Friðriksdóttir. Báðar hreyfingarnar halda sitt umdæmisþing á þessu hausti, og báðar í Salnum í Kópavogi. Fertugasta umdæmisþing Kiwanisumdæmisins Ísland – Færeyjar var haldið í Kópavogi 10. til 12. september sl. Að venju voru veittar viðurkenningar og þar ber helst að nefna að Fjölgunarbikarinn fékk klúbburinn Sólborg úr Hafnarfirði, Jörfi athyglisverðasta fjáröflunarverkefnið, Elliði athyglisverðasta styrktarverkefnið og Keilir fékk fjölmiðlabikarinn. Sjö klúbbar hlutu viðurkenningu sem fyrirmyndarklúbbur.

 
Hreint vatn - brunnur lífs" er yfirskrift 65 umdæmisþings Rótarýs sem haldið verður í Kópavogi 15. og 16. október nk. og er ætlað öllum áhugasömum Rótarýfélögum. Hreint vatn, hreint umhverfi - brunnur lífs er titill erindis sem Helgi Björnsson jöklafræðingur flytur í tilefni af þema Rótarýþingsins auk fjölda annara erinda sem tengjast þingstarfinu.

Óskar Guðjónsson er safnstjóri hjá Borgarbókasafni Reykjavíkur í Sólheimum og Árbæ og hefur verið Kiwanisfélagi síðan 1990, fyrst á Keflavíkurflugvelli í Kiwanisklúbbnum Brú þar sem hann starfaði en síðan í Kiwanisklúbbnum Eldey í Kópavogi frá 2003 eftir að starfsemin suður frá lagðist niður. Hann segir starfið í Kiwanis hafa gefið sér ótrúlega mikið og sem umdæmisstjóri hafi hann verið að heimsækja klúbba vítt og breitt um landið. ,,Starfið hefur verið mér gífurlega mikilvægt félagslega, gefið mér m.a. tækifæri til að tjá mig, en síðan er það einnig þetta starf í kringum ýmsa góðgerðarstarfsemi sem er öllum félögum svo gefandi, að láta gott af sér leiða.  Starf umdæmisstjóra gefur manni tækifæri til að kynnast svo mörgum og mismunandi góðgerðarverkefnum sem klúbbarnir víðs vegar um land eru að vinna að auk sölu K-lykilsins sem er landsverkefni í þágu geðverndarmála.”
Óskar segir klúbbum fari fjölgandi og fjölgun félaga hafi verið um 10% á sl. ári. Félagar eru um 1.000 talsins.

Þörf fyrir félagslega nálægð hefur aukist

Margrét Friðriksdóttir er skólameistari MK og var stofnfélagi í Rótarýklúbbnum Borgum árið 2000 og hún segir að starfið í Rótarý hafi gefið henni mjög mikið. ,,Þarna hittir maður fólk í hverri einustu viku, þarna eru góðir fyrirlesarar um fjölmörg efni og svo er það gefandi að taka þátt í starfi þar sem fólk er að láta gott af sér leiða. Starf umdæmisstjóra er stærri verkefni en ég áttaði mig á þegar ég tók við því en ég mun heimsækja alla 30 klúbba landsins auk þess að halda landsþingið hér í Kópavogi. Ég mun sækja norrænt þing í Danmörku og aftur seinna í haust í Svíþjóð og því tók ég mér tveggja mánaða frí frá skólameistarastarfinu til að sinna þessum hluta starfsins.”
Margrét segir Rótarýfélaga vera nú 1234 talsins og það hafi orðið fjölgun og á síðasta ári hafi verið stofnaður þriðji Rótarýklúbburinn í Kópavogi, og sá 30. á landinu og einnig hafi verið stofnaður ungmennaklúbbur í Kópavogi, Rótaract. Á síðustu fimm árum hafi orðið 10% fjölgun Rótarýfélaga á Íslandi.
,, Nýir Rótarýfélagar koma alltaf inn gegnum aðra Rótarýfélaga. Þeir geta sett sig í tengst við starfandi Rótarýfélaga er verið boðið og síðan þarf að mæla með þeim,” segir Margrét Friðiksdóttir.
,,Nýjum félögum í Kiwanis verður að vera boðið en ef þú vilt gerast félagi getur þú sett þig í samband við forseta klúbbsins og síðan eru fundnir meðmælendur. Það er áhugi á því að starfa í svona klúbbum,” segir Óskar Guðjónsson.
Margrét og Óskar eru sammála um að fólk vill vera meira vera saman í dag og mæting á fundi hafi batnað í kreppunni. Fólk sækist í auknu mæli eftir félagslegri nálægð en áður var.