Glæsileg árshátíð á Klaustri

Glæsileg árshátíð á Klaustri

  • 28.10.2010

Kiwanisklúbbarnir Ós á Hornafirði og Búrfell á Selfossi slógu saman árshátíðum og stjórnarskiptum sínum um síðustu helgi.  Mæst var á miðri leið, á Kirkjubæjarklaustri, á hótelinu þar. Búrfellsmenn fögnuðu í leiðinni að rétt 40 ár eru liðin frá stofnun klúbbsins, en hann var stofnaður 30. september 1970.
Til að fagna þessum áfanga mættu til viðbótar, nærri 20 félagar frá Kiwanisklúbbnum Eldborgu í Hafnarfirði og einnig Óskar Guðjónsson umdæmisstjóri ásamt fylgdarsveini sínum, Birni Baldvinssyni.
Stjórnarskipti Ós og Búrfellls fóru fram síðdegis á laugardaginn og sá Gísli Valtýsson svæðisstjóri Sögusvæðis um þau mál. Nýja stjórn Búrfells skipa: Forseti Guðjón Jónsson, kjörforseti  Jóhann Sveinbjörnsson, ritari Hákon Halldórsson, féhirðir Ágúst Magnússon, fráfarandi forseti Diðrik Haraldsson.
Nýja stjórn Ós skipa. Guðjón Pétur Jónsson, forseti, Geir Þorsteinsson, ritari, Miralem Haseta gjaldkeri, Þorbergur Torfason, kjörforseti og Ásgeir Ásgeirsson, fráfarandi forseti.
Um kvöldið var svo boðið til villibráðarveislu á Hótel Klaustri. Haukur Sveinbjörnsson fyrrum svæðisstjóri Sögusvæðis sá um veislustjórn kvöldsins og fórst það vel úr hendi. Búrfellsfélögum voru færðar árnaðaróskir og gjafir í tilefni afmælisins og nokkrir stigu á stokk og sögðu gamanmál. Og svo var stiginn dans fram á nóttina.