Stjórnarskipti hjá Höfða

Stjórnarskipti hjá Höfða

  • 07.10.2010

Stjórnarskiptahátíð Kiwanisklúbbsins Höfða var haldin á Hótel Glym í Hvalfirði laugardaginn 25. september s.l. Hátíðin hófst með borðhaldi og var Reynir Áslaugsson veislustjóri og hélt hann veislugestum við með léttu glensi og fróðleik. Að lokinni góðri þriggja rétta máltíð var fráfarandi forseta Sigurði Svavarssyni gefið orðið. Hann fór nokkrum orðum yfir starfsárið sem var 20. starfsár klúbbsins. Forseti kallaði upp allar eiginkonur félaga og þakkaði þeim fyrir þeirra störf, þó Sérstaklega veitingar á afmælisdegi klúbbsins þann 17. apríl.
 
Forseti færði þeim síðan rósir og fengu þær ómælt klapp á eftir. Hann minntist á að klúbburinn hlaut tilnefninguna fyrirmyndar klúbbur á umdæmisþingi sem haldið var í byrjun september. Sigurður var annars sáttur við starfsárið, þó öll markmið hefðu ekki náðst. Þrír félagar fengu viðurkenningu fyrir 100% mætingu, þeir eru Gísli H. Árnason, Guðmundur St. Sigmundsson og Jakob Marinósson. Félagi ársins var kjörinn Gísli H. Árnason, en þess má geta að hann vinnur að samantekt að sögu Kiwanisklúbbsins Höfða. Einnig var Jóni K. Sigurfinnssyni veitt silfurstjarna Styrktarsjóðs umdæmisins fyrir góð störf í þágu klúbbsins. Að lokum þakkaði Sigurður öllum félögum gott samstarf á starfsárinu.

Næst voru teknir inn tveir nýir félagar, þeir heita Sverrir Ólafur Benónýsson og Guðmundur Jóhann Gíslason. Þess má geta að þeir hafa verið í aðlögun á starfsárinu. Síðan var komið að stjórnarskiptunum sem var í
höndum Sigurðar Jóhannssonar og Jakobs Marinóssonar og fórst þeim það vel úr hendi. Þeir sem skipa næstu stjórn 2010-2011 eru :

Forseti: Guðmundur St. Sigmundsson
Fráfarandi forseti: Sigurður Svavarsson
Kjörforseti: Kristján Jóhannsson
Ritari: Steindór Steindórsson
Gjaldkeri: Kjartan Kjartansson
Féhirðir: Hlynur Árnason
Meðstjórnendur: Gestur Halldórsson, Halldór Jóhannesson og Hjörleifur Már Jónsson

Að loknum stjórnarskiptum tók nýr forseti Guðmundur Stefán Sigmundsson til máls, hann kallaði til sín
fráfarandi forseta, Sigurð og eiginkonu hans Erlu Eyjólfsdóttir og þakkaði þeim fyrir óeigingjarnt starf í þágu
Kiwanisklúbbsins Höfða og færði þeim þakklætisvott frá klúbbnum. Forseti beindi síðan orðum sínum
að félögunum og vænti hann góðs Kiwanisstarfs í Höfða á starfsárinu. Síðan áttu Höfðafélagar ásamt eiginkonum skemmtilega kvöldstund í vistlegum húsakynnum Hótels Glyms.