Frá Umdæmisstjóra

Frá Umdæmisstjóra

  • 05.10.2010

Góðir Kiwanisfélagar nær og fjær 1. október er alltaf sérstakur dagur hjá Kiwanis! Þetta var dagurinn sem nýir embættismenn umdæmis og klúbba taka formlega til starfa. Fólkið sem tók metnaðarfulla ákvörðun um
að leiða okkur inní nýtt ár Kiwanisstarfa  og -þjónustu.  Ég vil nota tækifærið og þakka öllum fráfarandi embættismönnum umdæmis, svæða og klúbba fyrir ánægjulega samvinnu og vel unnin störf á liðnu starfsári. Grasrótinni, klúbbfélögum, þakka ég frábær kynni og ómetanlega gestrisni, þar sem knúið hefur verið dyra. Klúbbaheimsóknirnar, innsýnin í óeigingjarnt starf félaganna og jákvætt viðmót ykkar mun verða mitt vegarnesti inní nýtt starfsár.
Eins og þið vitið líklega er  ég í þeirri undarlegu stöðu að fá að njóta þeirra sérstöku forréttinda að leiða hreyfinguna, til að þjóna, í eitt ár enn. Örlögin höguðu því þannig  réttkjörinn umdæmisstjóri 2010-2011, Geir Guðmundsson, sá sér ekki fært, í ljósi alvarlegra veikinda sinna, að takast á við erfitt og krefjandi starf. Hann tók kjarkmikla ákvörðun og unnið hefur verið úr henni. Geir og fjölskyldu hans sendum við okkar bestu kveðjur með von um góðan bata.

Fyrri hálfleik er því er lokið og sá seinni er nýhafinn. Margt tókst vel á liðnu ári og ánægjulegast var að sjá hversu vel eflingarumræðunni var tekið. Ég ætlaði varla að trúa mínum eigin augum þegar ég fór í félagatalið 1. okt og talan 940 birtist á skjánum. Til hamingju ágætu félagar, lykilfélagar hreyfingarinnar, til hamingju Vörður og til hamingju Helgafells/Eldfellsfélagar velkomin í hópinn. Hvernig seinni hálfleikurinn spilast ræðst að samvinnu okkar í vörn og sókn með markmið Kiwanis að leiðarljósi. Nýtt Kiwanisstarfsár er hafið og ég hlakka til að vinna með því ágæta fólki sem er tilbúið að sinna þeim verkefnum sem blasa við. Ég vona að ánægjustundirnar verði margar og minningarnar jákvæðar.

Ég hvet okkur öll til að láta Kiwanisákefðina og -kraftinn ná tökum á okkur og að við setjum klúbbþjónustuna í forgrunn, höldum glæsilegan K-dag og Hjálmadag og hugum að nýju heimsverkefni. Hvetjum hvert annað til að segja einhverjum frá Kiwanis á sama hátt og einhver sagði okkur einu sinni frá Kiwanis. Þannig eflum við og styrkjum hreyfingu og stuðlum að nauðsynlegri endurnýjum.

Ég óska öllum Kiwanisfélöum árangurs- og gifturíks komandi Kiwanisárs
 
Óskar Guðjónsson Umdæmisstjóri