Kiwanisklúbburinn Þyrill veitir veglega styrki

Kiwanisklúbburinn Þyrill veitir veglega styrki

  • 03.09.2010

2. september 2010
Kiwanisklúbburinn Þyrill á Akranesi fagnar um þessar mundir 40 ára afmæli og af því tilefni veitir klúbburinn veglega styrki til líknarmála og félagasamtaka. Fór afhending styrkja fram á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi miðvikudagskvöldið 1. september sl.  Kiwanisfélagar hafa í tilefni afmælisins gefið ýmsan búnað á dagdeild Sjúkrahússins á Akranesi. Hófst athöfnin með því að læknar og deildarstjórar kynntu starfsemi deildarinnar fyrir kiwanisfélögum og gestum. Styrkirnir voru síðan afhentir formlega í matsal sjúkrahússins þar sem boðið var upp á kaffi og meðlæti.
Halldór Fr. Jónsson forseti Þyrils sagði af þessu tilefni að það væri klúbbfélögum mikil ánægja að geta stutt við ýmist mikilvægt starf í samfélaginu, þar á meðal starfsemi sjúkrahússins. Á tímamótum sem þessum reyndi klúbburinn að leggja sérstaklega mikið af mörkum til samfélagsins.
Guðjón Brjánsson framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands sagði að þótt sælla væri að gefa en þiggja þá tæki forstöðufólk sjúkrahússins með ánægju við þessum gjöfum. Það hjálpaði mikið að halda uppi nauðsynlegri og öflugri heilbrigðis- og sjúkraþjónustu að eiga góða að eins og kiwanismenn. Fulltrúar fleiri styrkþega tóku einnig til máls í kaffisamsætinu, þar á meðal Guðjóns Guðmundsson framkvæmdastjóri Dvalarheimilisins Höfða sem sagði að kiwanismenn hefðu frá upphafi stutt vel við starfsemina á Höfða.  
Gjafirnar sem Þyrill veitti núna í tilefni 40 ára afmælisins voru til HVE á Akranesi að andvirði 1.420.000 krónur. Dvalarheimilið Höfði á Akranesi fékk 1.135.000 krónur, Íþróttafélagið Þjótur; íþróttafélag fatlaðra á Akranesi fékk 350.000 kr. og sumarbúðir Dropans sem starfa með sykursjúkum börnum 100.000 krónur. Áður höfðu Mæðrastyrksnefnd og styrktarsjóður Akraneskirkju fengið 200.000 krónur hvor.
 
Mestar tekjur af flugeldasölu
Kiwanisklúbburinn Þyrill á Akranesi var stofnaður 2. maí 1970, þegar 30 ungir menn ákváðu að stofna kiwanisklúbb og eru sjö þeirra ennþá starfandi í klúbbnum. Helsta fjáröflun Þyrils er flugeldasala og hefur árangur af henni verið góður. Síðustu ár hefur tekist góð samvinna við Knattspyrnufélagið ÍA um söluna og hafa báðir aðilar lagt sig verulega fram að ná sem mestum ávinningi og um síðustu áramót komu um 800 þúsund krónur í hlut Þyrils. Allar tekjur af sölunni renna beint í styrktarsjóð klúbbsins.
 
Skessuhorn greindi frá.