Annasamt sumar umdæmisstjórahjóna

Annasamt sumar umdæmisstjórahjóna

  • 20.07.2010

Viðburðaríku sumri hjá okkur er senn að ljúka. Segja má að við höfum búið í ferðatöskum síðan í lok maí. Á meðan Konný ferðaðist til Sikileyjar með Evrópuþingshópnum fór ég krókaleiðina þangað með viðkomu í Eistlandi á undirbúnigsfund vegna Kiwanissumarbúðanna. Evrópuþingið var frekar tíðindasnautt, umhverfið ægifagurt en skipulag allt frekar lausgirt. Að þingi loknu var framhaldið ævinatýralegri eyjaferð "a la" Böddi og Diddi - frábær ferð með frábæru og lífsglöðu Kiwanisfólki.
Varla komin heim, er kúrs var tekinn á heimsþing í Las Vegas. Öllu viðburðarríkara og skipulagðara en Sikiley, þó umhverfið væri gervilegt og heillaði ekki. Toppurinn var kynning á nýju heimsverkefni(MNT-stífkrampi) sem við munum heyra meira um á næstu misserum. Að vanda var mikið var um fundasetur og fræðslu. Nokkrar breytingar voru gerðar á heimslögum sem munu hafa áhrif hér. Genf var formlega kynnt sem næsta heimsþingsborg og kosningar forystusveitar var spennandi. Gaman að hitta fjölda Íslandsvina sem allir báðu fyrir kveðjur.
Við heimkomu var fundað í framkvæmdastjórn, með þingnefnd, K-dagnefnd og með Eistlandsförum, en unnið hefur verið með hópnum síðan í byrjun mars. Vikulöng sumarbúðaferð hófst síðan í byrjun júlí og lauk um helgina. Þetta var frábær ferð með kappsömum hóp 11 yndislegra krakka og vikan leið alltof fljótt við leik og störf. Þrátt fyrir 35 stiga hitabylgju, skæð flugnabit og brjósklosseinkenni með tilheyrandi, efast ég ekki andartak um að í minningunni verði ferðin ein skemmtilegasta sumarfrís- og Kiwanisminning okkar hjónanna. Krakkarnir stóðu sig frábærlega og voru landi og þjóð í hvívetna til sóma. Lítill Kiwanisfugl kvakar núna hávært í eyra okkar um að þessi ferð muni verða byrjun á einhverju nýju og skemmtilegu sem mun bera ávöxt á næstu misserum. Við sjáum hvað setur.
Framundan eru frekari svo frekari fundarhöld vegna þingshalds og ferð á Nordenþing og undirbúningsfund í Gent vegna nefndarstarfa á vegum KIEF næsta starfsár. Það má því með sanni segja að sumarið hafi verið annasamt eins og reyndar allt starfsárið og ótrúlegt að hugsa til þess að því fari að ljúka. Tíminn hefur flogið áfram og manni manni finnst að maður eigi eftir að gera svo heilmikið. En það lifa enn 2 mánuðir.

Bestu sumarkveðjur úr Kópavogi og sjáumst hress á þingi
Óskar og Konný