Vörðukonur í sínu fyrsta verkefni.

Vörðukonur í sínu fyrsta verkefni.

  • 21.04.2010

24. mars sl. fóru Vörðukonur á Barnaspítalann  og voru með matarveislu fyrir börnin og aðstandendur þeirra, um 60 manns.  Þetta er sænsk hugmynd sem Brynjari Péturssyni í Grindvík langaði til að yrði að veruleika á Íslandi.   Brynjar og Svanhildur kona hans voru með son sinn, Frank,  um margra mánaða skeið á sjúkrahúsinu í Lundi og þangað komu Kiwanismenn  einu sinni í mánuði og voru  með mat fyrir börnin og aðstandendur.
Varðan er kvennaklúbbur sem verður stofnaður í Reykjanesbæ í haust og hefur undirbúningur að stofnun hans staðið yfir í nokkurn tíma.  
Að þeirra sögn var þetta mikil tilbreyting fyrir alla að fá „venjulegan mat“  í stað sjúkrahúsfæðis og skyndibita  sem fólk neytir þegar börn dvelja langdvölum á sjúkrahúsi.  Það er Umhyggja sem heldur utan um þetta nýja verkefni en það eru  síðan  aðildarfélög þess sem sjá um að  fá líknarfélög til  að annast þetta í hverju sinni.  Brynjar hafði samband við Vörðukonur og óskaði eftir því að Varða mundi  sjá þetta verkefni fyrir SKB – Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna.   Varða býr ekki yfir miklum sjóðum – óstofnaður klúbburinn- svo  að leita þurfti á náðir fyrirtækja með að gefa okkur öll aðföng.  Viljum við þakka sérstaklega Samkaup-Netto sem gaf  hráefni og Skólamat sem  eldaði og flutti matinn fyrir okkur.  Einnig lánaði Skólamatur okkur allan borðbúnað sem við fluttum með okkur á Barnaspítalann.   Það var mjög skemmtilegt og gefandi að taka þátt í þessu verkefni  en eins og litla stúlkan sagði við pabba sinn  „Pabbi, mér finnst eins og það sé hátíð“.
 
     Jóhanna M Einarsdóttir
     verðandi forseti Vörðu.