Höfði styrkir.

Höfði styrkir.

  • 07.12.2009

Kiwanisklúbburinn Höfði var einn af styrktaraðilum sem styrkti íslenskar stúlkur, sem eru bundnar við hjólastól eftir alvarleg slys, eru nú staddar í Bandaríkjunum þar sem þær æfa skíði. Stúlkurnar, sem eru 19 ára og kynntust í endurhæfingu  á Grensásdeildinni, hafa stofnað bloggsíðu þar sem þær fjalla um skíðaævintýri sín í Colorado.
Stúlkurnar, sem heita Kristín Sigurðardóttir og Arna Sigríður Albertsdóttir, eru báðar fæddar árið 1990. Eftir að hafa kynnst á Grensás fóru þær saman á skíðanámskeið á Akureyri í fyrra, en þar var fólk frá Bandaríkjunum og Austurríki að kenna fólki á svokölluð einskíði. Það eru skíði fyrir einstaklinga sem geta ekki staðið á tveimur skíðum.
Kristín og Arna fengu áhuga á íþróttinni og fór til Bandaríkjanna 30. nóvember sl. á annað námskeið á skíðasvæðinu Winter Park í Denver.
Arna, sem æfði skíði á yngri árum, slasaðist alvarlega í æfingarferð í Noregi í desember 2006. Hún hlaut mænuskaða og getur ekki hreyft neitt og er tilfinningalaus fyrir neðan brjóst.
„Með að skíða aftur vil ég reyna að finna mér íþrótt sem ég get stundað og njóta útiverunnar og fá vonandi smá frelsis tilfinningu,“ skrifa Arna á bloggsíðuna.
Kristín lenti í alvarlegu bílslysi í september í fyrra. Hún hlaut mænuskaða og lamaðist fyrir neðan mitti. Hún er hins vegar með mátt í hnjám og framanverðum lærum.
„Með því að stunda skíði gefst mér tækifæri á að vera úti í náttúrunni þar sem að það er ekki oft tækifæri til þess á veturna og gefur manni frelsi og tækifæri til að gera eitthvað skemmtilegt með vinum,“ skrifar Kristín.

mbl.is greindi frá.