Kiwanismenn gleðja slösuð og veik börn

Kiwanismenn gleðja slösuð og veik börn

  • 05.11.2009

Kiwanisklúbburinn Katla í Reykjavík færði SHS í gær eitt hundrað bangsa og önnur tuskudýr til þess að gleðja þau fjölmörgu börn sem sjúkraflutningamenn SHS flytja vegna veikinda og slysa. Marteinn Geirsson deildarstjóri segir gjafir eins og þessar gleðja slösuð og veik börn mikið við erfiðar aðstæður.


 
Það er talsvert um að börn séu flutt á sjúkrahús vegna veikinda og slysa. Þau kunna afskaplega vel að meta það að fá eitthvað til að halda utan um á stundum sem slíkum, segir Marteinn.

Fulltrúar úr stjórn og styrktarsjóði Kötlu afhentu slökkviliðsstjóra hundrað bangsa í gær en kaupin á þeim eru fjármögnuð af styrktarsjóði klúbbsins. Bangsarnir verða í öllum sjúkrabílum SHS og gefnir börnum sem þurfa á þjónustu sjúkraflutningamanna að halda. SHS kann Kiwanismönnum bestu þakkir fyrir gjöfina. Kötlumenn hafa áður gefið SHS annað eins af böngsum.

Kiwanisklúbburinn Katla er með elstu Kiwanisklúbbum landsins. Félagsmenn eru 30 talsins. Þeir hafa einnig komið færandi hendi á Barnaspítala Hringsins til að gleðja börnin sem þar þurfa að dvelja.