Bjarni B. Ágeirssson-Minningarorð

Bjarni B. Ágeirssson-Minningarorð

  • 13.02.2009

Það verður vandfyllt skarðið sem Bjarni B. Ágeirsson skilur eftir í röðum Kiwanisfélaga. Dugnaðarforkur, eldhugi,foringi eru orð sem koma í hugann þegar litið er yfir starf hans á vettvangi Kiwanishreyfingarinnar.  Hann var með í hópnum sem Einar A Jónsson og samherjar hans fengu til liðs við Kiwanisklúbbinn Heklu þegar hann var stofnaður 1964. Bjarni var þá ungur maður og  var fljótt  kallaður til ábyrgðar.

Þar sem ekki var  búið að stofna umdæmi Kiwanisklúbba á Íslandi á þessum tíma  voru íslenskir Kiwanisfélagar í nánum tengslum við frændur okkar á norðurlöndum. Sérstakt svæði var síðan stofnað  og kallað Skandinavía-Ísland.  Bjarni var valinn til að gegna hlutverki   ritara og féhirði í svæðinu árið 1965-1966 og  varð síðan svæðisstjóri Íslands þegar Ísland var gert að sérstöku svæði árið 1968. Árið 1970-1971 var Bjarni valinn til að vera umdæmisstjóri í umdæminu Norden-Ísland.
Árið eftir tók hann sæti í Evrópuráði Kiwanis og var síðan kosinn forseti evrópusamtaka Kiwanis 1976-1977 og sat síðan áfram sem fráfarandi forseti árið eftir. Um rúmlega tíu ára skeið  tók hann þannig virkan þátt í samstarfi á vettvangi Kiwanis í Evrópu. Bjarni gekk hreint til verks og var vinsæll og hæfur leiðtogi ,hann átti létt með að vinna með fólki frá hinum ýmsu löndum í Evrópu og var vel metinn af samstarfsmönnum .
Tveimur árum eftir að Hekla var stofnuð var hafist handa um að stofna Kiwanisklúbbinn Kötlu og lagði Bjarni fram sína krafta ásamt félögum í Heklu og seinna kynntu þeir  félagar hugsjónir Kiwanis fyrir mörgum öðrum  ungum mönnum sem gengu til liðs við nýja klúbba sem allir unnu að þjóðþrifamálum í líknarstarfi. Kiwanishreyfingin hefur nú starfað á Íslandi  í 45 ár og er óhætt að fullyrða að  þeir sem hófu merkið á loft skiluðu miklum árangri.
Árið 1971 var Kiwanisklúbbinn Nes á Seltjarnarnesi stofnaður og enn var  Bjarni  í hópi þeirra sem lögðu hönd á plóg og varð hann fljótt einn af máttarstólpum klúbbsins. Þar starfaði Bjarni allt þar til sá klúbbur sameinaðist aftur Heklu . Eiginkona Bjarna, Ellý fylgdi manni sínum vel eftir  í Kiwanisstarfinu tók virkan og  mikinn þátt í að efla vináttutengsl við íslenska og erlenda félaga og eiginkonur þeirra. Þau hjón voru alla tíð  reglulegir þátttakendur á þingum innanlands og utan og jafnan fylgdi þeim kátína og hressilegur andblær. Það var gaman að starfa með Bjarna, hann lá ekki á skoðunum sínum var  ákafur í því sem hann taldi rétt,en það var líka allt í lagi að vera ósammála honum og deila við hann um leiðir að sameiginlegum markmiðum. Aldrei man ég eftir að hann erfði það á nokkurn hátt  og mætti manni næst jafn kátur og vinsamlegur.
Í félagsskap fyrrv. Umdæmisstjóra voru þau Ellý virkir félagar . Við samstarfsfólk þeirra ,sum okkar til áratuga metum mikils   allt þeirra framlag og óþrjótandi elju og trúmennsku við starf Kiwanishreyfingarinnar en umfram allt vináttu þeirra og viðmót. Bjarna B. Ásgeirssonar er minnst með virðingu og vinsemd. Við færum Ellý og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveður og biðjum  þeim blessunar um ókomna tíð.


Fyrir hönd fyrrverandi umdæmisstjóra
Sigurður Pétursson
Ástbjörn Egilsson