Andlát

Andlát

  • 27.01.2009

Bjarni B. Ásgeirsson f.v Evrópuforseti Kiwanis andaðist á Landakotsspítala 24. janúar sl. og verður útför hans gerð frá Neskirkju í Reykjavík föstudaginn 30. janúar kl. 15. Bjarni B. Ásgeirsson, framkvæmdastjóri, var fæddur í Reykjavík 31. ágúst 1937, sonur hjónanna Ásgeirs Bjarnasonar frá Húsavík og Rósu Finnbogadóttur frá Vestmannaeyjum.

 Hann kvæntist Elínu Guðmundsdóttur sjúkraliða frá Patreksfirði 9. sept. 1959. Börn þeirra Elínar eru Anna Rósa, Ásgeir Guðmundur, Guðrún Helga og Regína. Hann lauk prófi frá Verzlunarskóla Íslands 1955 og stundaði framhaldsnám á sviði viðskipta í Hamborg í Þýskalandi og London á Englandi og starfaði um tíma í Manchester. Hann gekk til liðs við Oddfellowregluna á Íslandi 25 ára að aldri og var félagi þar til æviloka.

Hann var félagsmaður í Kiwanishreyfingunni á Íslandi og vann ötullega að hugsjón Kiwanis allt til hinsta dags. Meðal margra trúnaðarstarfa í hreyfingunni var hann stofnfélagi Kiwanisklúbbanna Heklu 1964 og Nes 1971 og forseti beggja klúbbana, umdæmisritari Skandinavíu 1967, svæðisstjóri Íslands '68, umdæmisstjóri Norden og Íslands '70-'71, í Evrópuráði KI-EF '71-'72, féhirðir KI-EF '72-'73, annar varaforseti KI-EF '73-'74, fyrsti varaforseti KI-EF '74-'75, kjörforseti KI-EF '75-'76, forseti KI-EF '76-'77, fráfarandi forseti KI-EF '77-'78. Hann var heiðraður sérstaklega á Evrópuþingi KI-EF í Gdansk í Póllandi 2007.

Kiwanishreyfingin vottar aðstandendum alla samúð og Guðsblessunar á þessari erfiðu stundu.