Ein milljón frá Kiwanismönnum

Ein milljón frá Kiwanismönnum

  • 28.10.2008

Rauði krossinn fræðir börn og ungmenni í kjölfar jarðskjálftans á Suðurlandi  
Rauði kross Íslands vinnur nú að fræðslu fyrir börn og ungmenni í kjölfar
jarðskjálftans á Suðurlandi  ásamt bæjar- og skólayfirvöldum í Árborg, Ölfusi og
Hveragerði.  Fræðslan fyrir börnin hefst þriðjudaginn 28. október, og er fjölmiðlum
boðið að kynna sér verkefnið í Sunnulækjarskóla á Selfossi kl. 11:00.
Kiwanishreyfingin styrkir verkefnið, og munu fulltrúar hennar ásamt Don Cannady,
forseta Alþjóða hreyfingar Kiwanis afhenda Árnesingadeild og Hveragerðisdeild Rauða
krossins eina milljón króna við þetta tækifæri.  Sérfræðingar Rauða krossins í
áfallahjálp og sálrænum stuðningi veita viðtöl ásamt skólayfirvöldum
Sunnulækjarskóla.
 
Fræðslan fer fram í öllum grunnskólum á svæðinu:  Vallaskóla, Sunnulækjarskóla,
Barnaskóla Eyrarbakka og Stokkseyrar, og grunnskólunum í Þorlákshöfn og Hveragerði í
samstarfi við kennara og stjórnendur skólanna.   Einnig verður fræðsla fyrir
framhaldsskólanema í Fjölbrautaskólanum á Suðurlandi. Eins er boðið upp á sérstaka
fræðslu fyrir starfsfólk allra leikskóla á svæðinu og dagforeldra.
 
Markmið verkefnisins er að fræða börn og forsjáraðila þeirra um jarðskjálfta og
afleiðingar þeirra, með sérstaka áherslu á sálrænan stuðning.  Fræðslufundir fyrir
foreldra og forráðamenn grunnskólabarna verða einnig haldnir í samstarfi við
foreldrafélög skólanna.
 
Leiðbeinendur eru starfsmenn og sérfræðingar Rauða krossins í sálrænum stuðningi sem
eru sérhæfðir í að veita sálrænan stuðning og aðstoða fólk við að komast yfir
áfallastreitu í kjölfar hamfara.  Oft tekur langan tíma að vinna úr áföllum eftir
náttúruhamfarir og eru börn sérstaklega viðkvæm fyrir því þegar öryggi í umhverfi
þeirra er ógnað.