Stúlka bjargast í reiðhjólaslysi vegna notkunar hjálms

Stúlka bjargast í reiðhjólaslysi vegna notkunar hjálms

  • 12.06.2008


Emma Ljósbrá Friðriksdóttir lenti í reiðhjólaslysi í apríl síðastliðnum sem hefði getað valdið henni alvarlegum höfuðáverkum hefði hún ekki verið með hjálm. Atvikið átti varð með þeim hætti að Emma fór fram af kanti án þess að átta sig á því og datt fram fyrir sig á andlitið. Ekki nóg með það heldur tókst hjólið á loft og lenti aftan á hnakkanum á henni.

Emma rotaðist, marðist í andliti og brotnaði upp úr tönnum hennar en aðra áverka hlaut hún ekki og er við góða heilsu í dag.

Friðrik Höskuldsson, faðir Emmu, sagði í samtali við Vísi að ,,hún væri ekki hérna stelpan mín ef hún hefði ekki verið með hjálm". Hann segir Emmu alltaf hjóla með hjálm en hjálminn fékk hún að gjöf frá Kiwanis sem hefur undanfarin ár gefið öllum 7 ára börnum á landinu hjálma.

Herdís L. Storgaard hjá Sjóvá Almennum segir fremur óvanalegt að hjól takist svona á loft og lendi á fólki en það gerist þó og sérstaklega þegar eitthvað flækist í framhjóli eða þegar hjólað er ofan í dæld. Hins vegar gerist það nær undantekningarlaust að fólk lendi á andlitinu og höfðinu og því sé notkun hjálms mjög mikilvæg.

Mikið er um að fólk hjóli um þessar mundir bæði vegna veðurblíðunnar og hækkandi verðs eldsneytis þannig að gott er að vera meðvitaður um þessi efni og nota hjálminn.