Hjálmaverkefni Kiwanis og Eimskip

Hjálmaverkefni Kiwanis og Eimskip

  • 29.04.2008

Kiwanishreyfingin á Íslandi og Eimskip gefa öllum sjö ára börnum reiðhjólahjálma.
Fyrstu bekkingum í Ártúnsskóla voru afhentir fyrstu hjálmarnir í höfuðstöðvum Eimskips í morgun. Á næstu tveimur vikum munu Kiwanisfélagar svo heimsækja alla grunnskóla landsins og afhenda börnum hjálma og ræða við þau um umferðaröryggi og notkun hjálmanna.

Fimm ára farsælt samstarf
Eimskip og Kiwanis hafa undanfarin fimm ár átt mjög farsælt samstarf og hafa í sameiningu gefið og dreift rúmlega 23.000 hjálmum til grunnskólanema vítt og breitt um landið. Markmið samstarfsins hefur verið að draga verulega úr slysatíðni barna í umferðinni, með öflugu fræðslustarfi um notkun hjálma, sem kostaðir hafa verið af Eimskip. Eimskip og Kiwanis framlengdu nýlega samning sinn til næstu þriggja ára.
Frá því að samstarf félaganna hófst hefur hjálmanotkun barna og unglinga aukist verulega og  almennt forvarnastarf hefur einnig aukið þekkingu barna á notkun hjálmanna en afar mikilvægt er að þeir séu rétt stilltir og að börn fái góðar leiðbeiningar um notkun þeirra. Fræðslustarf í skólum er í góðu samstarfi við skólahjúkrunarfræðinga og með faglegum stuðningi Forvarnahúss.
         
Gylfi Ingason, Umdæmisstjóri hjá Kiwanis:
„Það er mikill fengur fyrir Kiwanis að hafa fengið Eimskip til liðs við okkur, sem hefur undanfarin fimm ár gert okkur kleift að gera hjálmaverkefnið að landsátaki. Það er ánægjulegt að sjá góðan árangur af okkar samstarfi, en á undanförnum árum höfum við séð mikla aukningu í notkun reiðhjólahjálma og sterkar vísbendingar um að starf okkar sé að bera árangur. Þá fellur verkefnið sérlega vel að meginmarkmiði Kiwanis „Hjálpum börnum heimsins" og góð tímasetning að hefja kynningarátak okkar nú við upphaf sumars."
Guðmundur Davíðsson, forstjóri Eimskips á Íslandi:
„Við höfum átt einstaklega gott samstarf við Kiwanis undanfarin ár og höfum nú ákveðið að leggja aukin þunga í kynningarátak okkar með samstarfi við Umferðarstofu og Reykjavíkurborg. Okkur er umhugað um öryggi barna og unglinga í umferðinni og vonumst til að framlag okkar nýtist til að draga enn frekar úr alvarlegum reiðhjólaslysum og auki almennt umferðaröryggi hjólreiðamanna. Í samstarfi við Kiwanis er markmið okkar að vera búnir að gefa hjálma til nær 40.000 grunnskólanema á næstu þremur árum."