Fréttir frá Höfða.

Fréttir frá Höfða.

  • 07.03.2008

Núverandi stjórn Höfða hefur fylgt fast EFTIR því markmiði sínu að gera fundi skemmtilega og fræðandi. Eins og fram kom í síðasta pistli höfum við Höfðafélagar tekið upp þá nýbreytni að heimsækja nokkra félaga okkar á vinnustöðum þeirra til að kynna okkur störf þeirra og þeirra fyrirtækja sem þeir starfa hjá.

Þann 14. febrúar heimsóttum við höfuðstöðvar Símans við Suðurlandsbraut en félagi okkar Hjörleifur Már Jónsson er yfirbryti í mötuneyti þeirra. Eins og vænta mátti voru móttökurnar höfðinglegar og heimsónin í alla staði mjög fróðleg og skemmtileg.
Í upphafi heimsóknarinnar flutti Linda Björg Waage forstöðumaður kynningarmála Skipta hf fróðlegan fyrirlestur um Skipti sem er móðurfélag Símans og fleiri félaga.
Skipti hf. er eignarhaldsfélag með eignir á Íslandi og erlendis og einbeitir félagið sér að fyrirtækjum sem starfa á sviði fjarskipta og upplýsingatækni með það að markmiði að fjárfesta í vel reknum fyrirtækjum sem hvíla á traustum grunni en hafa jafnframt góða möguleika til vaxtar. Í dag eiga Skipti fyrirtæki á Íslandi, Danmörku, Noregi og á Bretlandseyjum. Stærsta fyrirtækið innan Skipta er Síminn, öflugasta fjarskiptafyritæki á Íslandi, sem Skipti eignuðust haustið 2005.
Fór Linda yfir sögu Símans og systurfélaga hans ásamt því að útlista fyrir okkur starfsemi þessara fyrirtækja. Linda gat þess að viðræður væru í gangi um kaup Skipta á Slóvenska símafélaginu Telekom Slovenije. (Þess má geta að þegar þetta er skrifað liggur ljóst fyrir að ekkert varð af þessum kaupum).
Fram kom hjá Lindu að Skipti hafa vaxið hratt á erlendum mörkuðum og er það stefna félagsins að halda áfram á þeirri braut.
Einnig kom fram í máli Lindu að Síminn yrði settur á markað í lok marsmánuðar. Gæti þar skapast spennandi fjárfestingarkostur fyrir almenning í öflugu og rótgrónu fyrirtæki. Að lokinni kynningunni svaraði Linda spurningum okkar. 
 
Kristinn Kristinsson forseti Höfða færði Lindu fána Höfða að gjöf.

Þegar Linda hafði lokið kynningu sinni og svörun spurninga tók Brandur Hermannsson deildarstjóri við og sýndi hann okkur m.a. hluta þess tæknibúnaðar sem í húsinu er. Brandur fór einnig lauslega yfir ýmis tæknileg mál og svaraði að lokum fyrirspurnum. Þær voru margar enda ekki nema von, þar sem Síminn tengist okkur öllum á einn eða annan hátt.


Brandur sýnir okkur hluta tæknibúnaðar Símans

Að loknum kynningunum var sest að snæðingi. Töfraði Hjörleifur fram ýmsar kræsingar sem báru þess vitni hve frábær kokkur hann er. Þegar menn höfðu gert matnum skil og losað aðeins um beltisólarnar, fór Hjörleifur með okkur fram í eldhús. Sýndi hann þau tæki og tól sem nauðsynleg eru í 1. flokks, stóru mötuneyti.


Hjörleifur í essinu sínu að reiða fram kræsingarnar

Þann 28. febrúar sl. heimsóttu 11 Setbergsfélagar okkur í Kiwanishúsið við Engjateig. Heimsókir milli klúbba eru mjög af hinu góða og efla þær kynni félaganna. Við fengum fyrirlesara í heimsókn þetta kvöld, Berghildi E. Bernharðsdóttur sjónvarpsfréttakonu. Berghildur hefur nýlokið við doktorsritgerð sína sem fjallar um „sjálfshjálp" í sínum víðasta  skilningi og ber ritgerðin heitið „LYSTIN AÐ LIFA". Rannsakaði hún og bar saman 6 bækur sem gefnar hafa verið út um þetta málefni. Elsta bókin er frá 1944 eftir Dale Carnegie sem allir kannast við enda vinsæl námskeið kennd við hann. Ein bókanna er eftir Guðjón Bermann og önnur heitir The Secret, sem margir kannast við. Erindi Berghildar var mjög skipulaga og skemmtilega fram sett og fróðlegt, og magnað hve höfundar þessara bóka eru sammála um mörg atriði er varða sjálfshjálp og sjálfsstyrkingu. Ljóst var á tilheyrendum, að sum þeirra atriða er fram komu í erindi Berghildar, snertu (viðkvæma) strengi þeirra, allavega sumra.


Steindór Steindórsson frændi Berghildar og Höfðafélagi, aðstoðar hana við lagfæringu á tæknilega vandamáli, en Steindór hafði veg og vanda að heimsókninni og undirbjó hana af kostgæfni


Þórir Björnsson og Kristinn Kristinsson forsetar Setbergs og Höfða skiptast á fánum klúbbanna að loknum skemmtilegum fundi