Ölversfréttir

Ölversfréttir

  • 08.01.2008

Mikið hefur verið að gera hjá Ölversfélögum undanfarin mánuð.  Í byrjun desember var haldinn árlegur jólafundur þar sem félagsmenn og makar hittust og skemmtu sér.  Mætingin var mjög góð og var troðfullt út að dyrum.  Áhugi er á meðal fjölda kiwanismanna í Ölver að stækka félagsheimili klúbbsins og miðað við fjölgun félaga þetta starfsárið og mætingu á skemmtanir þá verður væntanlega ekki vanþörf á.

Um miðjan desember hófst jólatrjáasala klúbbsins.   Fjáröflunarnefnd sér um söluna og í ár er Guðbjartur Örn Einarsson, Össi, formaður nefndarinnar.  Ákveðið var að selja jólatrén við Másbakarí  og tókst það vel til, sér í lagi þegar tekið er tillit til veðurfarsins sem var vægast sagt óhliðhollt útisölu jólatrjáa þetta árið.  Tæplega 80 tré seldust og sáu Ölversmenn í samstarfi við nokkra jólasveina að keyra út hluta þeirra þann 22. desember við góðar undirtektir viðtakanda eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.  Allir þeir sem versluðu jólatré og um leið efldu styrktarsjóð klúbbsins  eiga þakkir skyldar og þá ekki síst Sveitarfélagið Ölfus.  Sveitarfélagið hefur í gegnum áranna rás ávallt verslað öll sín jólatré af kiwanisklúbbnum Ölver.

Flugeldanefnd Ölvers, sem Kjartan B. Sigurðsson stýrði í ár, starfaði að fullu allan desembermánuð að skipulagningu flugeldasölu og flugeldasýningar.  Flugeldasalan hófst á milli jóla og nýárs í samstarfi við björgunarsveitina Mannbjörgu.  Þrátt fyrir afleitt veður flesta söludagana og slæma veðurspá um áramót þá gekk salan mjög vel líkt og síðast liðið ár. Samstarf þessara félaga hefur gengið mjög vel og skilað báðum aðilum dýrmætum tekjum til styrktar þeirra starfi í almannaþágu.  Eins og flestir muna þá var áramótabrennan og flugeldasýning Ölvers færð fram og þrátt fyrir skiptar skoðanir þá var mætingin fín á brennuna.  Ölversmenn þakka öllum þeim aðilum og fyrirtækjum sem styrktu sýninguna.    Um uppsetningu hennar sá flugeldanefndin auk annarra Ölversfélaga og höfðu þeir mjög skamman tíma í ár þar sem ekki lá ljóst fyrir fyrr en á gamlársdagsmorgun að mögulegt yrði að hafa sýningu vegna veðurs.  Líkt og í fyrra þá voru flugeldar einnig seldir fyrir þrettándann og hefur það mælst vel hjá ýmsum sprengjuglöðum samborgurum okkar.
Styrktarnefnd Ölvers, sem Hallgrímur Sigurðsson er í forsvari fyrir, hefur starfað ötullega í vetur og tekið fyrir og samþykkt mörg erindi um styrki sem borist hafa klúbbnum.  Samþykkt hafa verið styrktarverkefni fyrir vel á aðra milljón frá því að félagstarfið hófst í fyrrahaust. 
Framundan hjá kiwanisklúbbnum Ölver er þorrafundur og síðan sameiginlegt Þorrablót nokkurra félaga hér í Þorlákshöfn.  Öllum áhugasömum um starf klúbbsins er bent á heimasíðu hans www.kiwanis.isolver.