Aðventukvöld Kiwanis 2007

Aðventukvöld Kiwanis 2007

  • 10.12.2007

Hið árlega aðventukvöld Einherja var haldið sunnudagskvöldið 9. desember sl. í Dómkirkjunni í Reykjavík.
Fjöldinn allur af Kiwanisfólki og mökum mætti í kirkjuna og tók þátt í þessari góðu og hátíðlegu stund. Í upphafi bauð Eyjólfur Sigurðsson gesti velkomna og kynnti dagskrána. Að því loknu hélt Gylfi Ingvarsson umdæmisstjóri Kiwanis Ísland-Færeyjar ávarp.

Bergþór Pálsson söng listavel við undirleik Marteins H. Friðrikssonar og miðbæjarprestur, Þorvaldur Víðisson hélt hugvekju á léttum nótum, sem féll í góðan jarðveg viðstaddra. Þá sameinuðust allir í bænarefni, sem flutt var af leikmönnum og að lokum var sungið og var haft á orði að meira hefði mátt syngja saman.
Að athöfn lokinni var boðið upp á kaffi og piparkökur á kirkjuloftinu, þar sem fólk spjallaði saman, sló á létta strengi og treysti vinaböndin.
Um klukkustund síðar héldu ánægðir Kiwanisfélagar svo út í kvöldkyrrðina undir stjörnubjörtum himni. Nú á aðventunni hafði birtan undurskæra borist frá þessari litlu athöfn í Dómkirkjunni og tekið sér bólfestu - og skapað jólastemmningu í hjörtum þeirra sem þátt tóku, sem þakka fyrir sig.

Gunnar Kr. Sigurjónsson,
fjölmiðlafulltrúi Kiwanis.